Eldgosið var í góðum gír í gær og töluverður fjöldi fólks lagði leið sína þangað til að verða vitni að náttúruöflunum í allri sinni dýrð.
Líkt og sjá á meðfylgjandi myndum sem Kristján Kristinsson tók í gærkvöldi lét töluverður fjöldi fólks hins vegar sér það ekki nægja að horfa á eldgosið úr öruggri fjarlægð.

Kristján var við gosstöðvarnar í gærkvöldi og í samtali við Vísi segist hann hafa talið um fimmíu manns í allt að fimmtíu metra inn á hrauninu.
„Ég var að velta því fyrir mér hvort þetta væri einhver hópur sem væri kominn þarna en það byrjuðu nokkrir að fara og svo bara allt í einu kom strollan á eftir. Það virtist vera þannig að þegar ein byrjar þá byrja allar,“ segir Kristján.

Ítrekað hefur verið varað við því að ganga á hrauninu. Bent hefur verið á að þrátt fyrir að það virðist vera traust geti gríðarlegur hiti leynst undir því. Þá hefur verið varað við því að með því að fara út á hraunið sé fólk að setja björgunaraðila í „algjörlega vonlausa stöðu,“ fari hlutirnir á versta veg.

„Fólk vildi greinilega komast nálægt hrauninu. Þetta voru svolítið margir sem létu vaða,“ segir Kristján sem var í sinni fimmtándu ferð upp að eldgosinu frá því það hófst í mars.
„Þetta er við Stóra-hrút þegar þú ert búinn að labba alveg niður Langahrygg og ert búinn að koma aðeins fyrir Stóra-hrút. Þar var hraunið farið að renna niður, það hefur náttúrulega ekki sést heillengi, hraunið renna svona nálægt fólki,“ segir Kristján.

Engum virðist þó hafa orðið meint af bröltinu og þegar Kristján sneri aftur á sama stað tveimur tímum síðar var enginn út á hrauninu. Kristján segist ekki hafa orðið var við gæslu á svæðinu.
„Fólk fer þarna inná og telur þetta vera traust,“ segir Kristján. „Maður bara veit aldrei hvað getur gerst.“
Sem fyrr segir var gosið í góðum gír í gærkvöldi og margir sem lögðu leið sína þangað í gær. Gosið virðst þó vera að hvíla sig þegar þessi orð eru skrifuð, líkt og sjá má hér að neðan í vefmyndavél Vísis sem vaktar gosið í beinni útsendingu.