Erlent

Þúsundir fengu saltvatnslausn í stað bóluefnis

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hjúkrunarfræðingurinn er sagður hafa „bólusett“ um 8.600 einstaklinga.
Hjúkrunarfræðingurinn er sagður hafa „bólusett“ um 8.600 einstaklinga. epa/Yoshikazu Tsuno

Yfirvöld í norðurhluta Þýskalands hafa biðlað til fjölda einstaklinga um að þiggja viðbótarskammt af bóluefni gegn Covid-19 eftir að grunur vaknaði um að hjúkrunarfræðingur hefði sprautað þúsundir með saltvatnslausn í stað bóluefnis.

Hjúkrunarfræðingurinn starfaði fyrir Rauða krossinn og er talinn hafa „bólusett“ um 8.600 einstaklinga. Það sem er sérstaklega alvarlegt við atvikið er að flestir þeirra eru aldraðir og því í aukinni áhættu á að veikjast alvarlega af völdum SARS-CoV-2.

Lögregla rannsakar nú málið og byggir það aðallega á vitnisburði. Ekki er vitað hvað hjúkrunarfræðingnum gekk til en að sögn lögreglu hafði hún lýst efasemdum um bóluefnin á samfélagsmiðlum.

Það liggur ekki fyrir hvort búið er að handtaka eða ákæra viðkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×