Íslenski boltinn

Missti af mikil­vægum botns­lag því hann var í brúð­kaupi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðmundur Steinn í leik gegn Fylki á síðustu leiktíð. Hann er í dag leikmaður Fylkis.
Guðmundur Steinn í leik gegn Fylki á síðustu leiktíð. Hann er í dag leikmaður Fylkis. Vísir/Daníel Þór

Guðmundur Steinn Hafsteinsson var hvergi sjáanlegur er Fylkir heimsótti Keflavík í botnbaráttuslag í Pepsi Max deild karla. Atli Sveinn Þórarinsson, þjálfari Fylkis, var spurður út í fjarveru sóknarmannsins og sagði það vera „vegna persónulegra ástæðna.“

Í hlaðvarpsþættinum Dr. Football var hins vegar fullyrt að Guðmundur Steinn hefði verið í brúðkaupi og ekki komist í leikinn. Ekki sínu eigin brúðkaupi þó, heldur hjá vini sínum. 

Hjörvar Hafliðason, þáttastjórnandi, var á því að þetta væri heldur skrítið enda Fylkir í bullandi fallbaráttu en Arnar Sveinn Geirsson, forseti Leikmannasamtaka Íslands og fyrrum liðsfélagi Guðmundar var ekki á sama máli.

„Ég átti gott samtal við Árbæinn. Þar eru menn ekki hrifnir. Það er keyptur framherji til félagsins, Guðmundur Steinn Hafsteinsson. Svo ætla ég að leyfa mér að segja að það sé níu stiga leikur við Keflavík. Menn fara að velta því fyrir sér hvar hann er, þá er hann staddur í brúðkaupi,“ sagði Hjörvar undrandi.

„Hann samdi bara svona. Árbæingar þurfa þá að takast á við það,“ svaraði Arnar Sveinn. Hann benti svo á það að Guðmundur Steinn hafi ekki stefnt á að spila hér á landi í sumar og þetta hafi komið óvænt upp í hendurnar á honum.

Leik Fylkis og Keflavíkur lauk með 1-1 jafntefli sem þýðir að Fylkir er í dag í 10. sæti deildarinnar með 16 stig, þremur stigum fyrir ofan fallsæti. Keflavík er í 8. sæti með 17 stig og á leik til góða.

Hér að neðan má sjá umræðu Stúkunnar að leik loknum um fjarveru Guðmundar og hvað hann kemur með að borðinu fyrir Fylki.

Klippa: Stúkan: Umræða um Guðmund Stein

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×