Breska ríkisútvarpið segir frá því að mörgum hafi einungis verið gefinn nokkurra mínútna frestur til að hafa sig á brott vegna eldanna í Var-héraði, vestur af ferðamannastaðnum Saint-Tropez á frönsku Miðjarðarhafsströndinni.
Talsmenn slökkviliðs segja eldana hafa blossað upp í gær og ná þeir nú yfir rúmlega fimm þúsund hektara svæðis, um fimmtíu ferkílómetra. Mikil hitabylgja hefur herjað á íbúa á svæðinu og þannig gerðu spár ráð fyrir rúmlega 35 stiga hita í dag.
Um tuttugu manns hafa greinst með reykeitrun vegna eldanna og þá hafa þrír særst.
Gróðureldar hafa geisað víðs vegar um suðurhluta Evrópu í sumar, þar á meðal í Grikklandi, Tyrklandi, Spáni og Portúgal og segja sérfræðingar að náttúruhamfarir sem þessar komi til með að verða algengari á komandi árum vegna loftslagsbreytinga og mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.