Fótbolti

María út af í hálfleik í Meistaradeildartapi

Valur Páll Eiríksson skrifar
María Catharina

María Catharina Ólafsdóttir Gros spilaði fyrri hálfleik fyrir Celtic sem tapaði 2-1 fyrir spænska liðinu Levante í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta. Celtic er því úr keppni en spilar um þriðja sæti í sínum undanriðli.

Í fjögurra liða riðlinum er leikið í Þrándheimi en ljóst var að liðið sem ynni leik dagsins myndi mæta heimakonum í Rosenborg í úrslitaleik um laust sæti í næstu umferð. Rosenborg vann 2-1 sigur á FC Minsk frá Hvíta-Rússlandi fyrr í dag.

María var í byrjunarliði Celtic í dag en hún gekk í raðir félagsins frá Þór/KA fyrr í sumar. Hún er aðeins 18 ára gömul og var skipt af velli í hálfleik. Þá var staðan 1-0 fyrir Levante eftir mark hinnar frönsku Söndru Toletti á 37. mínútu.

Levante tvöfaldaði forystuna eftir aðeins fimm mínútna leik í síðari hálfleik þar sem spænska landsliðskonan Alba Redondo var á skotskónum. Á 64. mínútu minnkaði varnarmaðurinn Caitlin Hayes muninn fyrir Celtic en nær komst skoska liðið ekki.

Levante vann 2-1 og keppir því við Rosenborg um sæti í næstu umferð keppninnar. Celtic mætir Minsk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×