Enski boltinn

Á­sakaðir um að hafa slegið og sparkað í unga svarta leik­­­menn Chelsea á tíunda ára­tugnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gwyn Williams (t.v.) og Graham Rix (t.h.) á úrslitaleik FA bikarsins árið 2000.
Gwyn Williams (t.v.) og Graham Rix (t.h.) á úrslitaleik FA bikarsins árið 2000. Mark Leech/Getty Images

The Athletic hefur undir höndum dómsskjöl sem sýna fram á skelfilegt kynþáttaníð sem ungir svartir leikmenn enska knattspyrnufélagsins Chelsea urðu fyrir á tíunda áratug síðustu aldar. Gerendurnir eru þjálfari leikmannanna sem og yfirmaður unglingastarfs félagsins.

Nokkrir af leikmönnum Chelsea frá því á tíunda áratug síðustu aldar hafa nú stigið fram og lýst yfir skelfilegu ofbeldi sem þeir urðu fyrir er þeir voru á mála hjá félaginu. Sumir af þeim hafa nú höfðað mál gegn Chelsea þar sem félagið aðhafðist aldrei neitt þrátt fyrir að augljóslega væri eitthvað að.

Einn af þeim sem hefur kært félagið segir að Graham Rix, fyrrum unglingaliðs þjálfari Chelsea, hafi ítrekað lamið sig og þá hafi Gwyn Williams, sem var yfir unglingastarfi félagsins, gert slíkt hið sama. Annar fyrrum leikmaður segist vera með áfallastreituröskun eftir hryllinginn sem leikmenn upplifðu á hverjum degi. 

Rix er ásakaður um að hafa kýlt leikmann í klofið, slegið leikmann ítrekað í höfuðið og hellt heitu kaffi yfir annan sem endaði með minniháttar brunasár. Einnig á Rix að hafa tekið þátt í æfingaleik með liðinu þar sem hann tók innkast af öllu afli beint í andlit leikmanns sem stóð örstutt frá honum. Leikmaðurinn endaði kylliflatur á jörðinni með blóðnasir.

Rix, sem á að baki 17 A-landsleiki fyrir England, þjálfar nú Gosport Borough í 7. efstu deild Englands. Hann neitar öllum ásökunum. Williams neitar einnig öllum ásökunum um ofbeldi þó hann viðurkenni að rasísk ummæli hafi fallið á sínum tíma.

Fimm vikna réttarhöld munu hefjast þann 7. mars á næsta ári í máli þar sem fjórir fyrrum leikmenn Chelsea hafa stefnt félaginu þar sem það var vinnuveitandi þeirra Rix og Williams.

Talið er að málið verði eitt stærsta sinnar tegundar. Alls 62 vitni hafa verið boðuð, mögulega einhver af stærri nöfnum Chelsea, leikmenn eða starfslið, á árunum 1990 til aldamóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×