Memphis skoraði sitt fyrsta mark og bjargaði stigi fyrir Barcelona

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Memphis Depay skoraði sitt fyrsta mark fyrir Barcelona í kvöld.
Memphis Depay skoraði sitt fyrsta mark fyrir Barcelona í kvöld. Pedro Salado/Quality Sport Images/Getty Images

Barcelona heimsótti Athletic Bilbao í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Memphis Depay skoraði sitt fyrsta mark fyrir Barcelona í 1-1 jafntefli.

Börsungar eru enn að reyna að fóta sig án Lionel Messi, og þeir lentu í vandræðum í kvöld. Þeir voru mun meira með boltann í kvöld, en sköpuðu sér ekkert sérstaklega mikið af opnum marktækifærum.

Hvorugu liðinu tókst að koma boltanum í netið í fyrri hálfleik og því var staðan 0-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Heimamenn voru ekki lengi að brjóta ísinn í seinni hálfleik, en hann var ekki nema fimm mínútna gamall þegar að Inigo Martinez kom Bilbao yfir eftir stoðsendingu frá Iker Muniain.

Börsungar náðu að jafna metin þegar að stundarfjórðungur var til leiksloka, en þar var á ferðinni Memphis Depay með sitt fyrsta mark fyrir Barcelona eftir stoðsendingu frá Sergi Roberto.

Á þriðju mínútu uppbótartíma náði Eric Garcia, miðvörður Barcelona, sér í beint rautt spjald. Nico Williams var þá við að sleppa í gegn og Garcia, sem var aftasti maður, tók hann niður og fékk réttilega að líta rauða spjaldið.

Það kom þó ekki að sök og lokatölur urðu því 1-1 og Barcelona því með fjögur stig eftir tvo leiki í spnsku deildinni. Athletic Bilbao hefur gert jafntefli í báðum sínum leikjum og er því með tvö stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira