Daninn Jonas Lössl er jafnan aðalmarkvörður Midtjylland en hann fékk vikufrí hjá félaginu þar sem hann hafði ekkert frí fengið eftir að hafa verið með danska landsliðshópnum á EM í sumar. Elías Rafn fékk því tækifæri milli stanganna og spilaði sinn fyrsta keppnisleik fyrir liðið.
Hann nýtti það tækifæri vel og hélt hreinu er liðið vann öruggan 3-0 heimasigur á Silkeborg. Að vísu fékk hann á sig tvö mörk í leiknum, bæði skoruð af Niklas Helenius, en bæði voru dæmd af vegna rangstöðu eftir endurskoðun VAR.
Brasilíumaðurinn Evander, Pione Sisto og Andreas Dreyer skoruðu mörk Midtjylland í leiknum en Mikael Anderson spilaði síðustu 18 mínúturnar eftir að hafa komið af bekk liðsins. Skagamaðurinn Stefán Teitur Þórðarsson var í byrjunarliði Silkeborgar en var skipt af velli skömmu fyrir leikslok.
Midtjylland fer á topp deildarinnar með sigrinum þar sem liðið er með 15 stig eftir sex leiki en Randers, sem er í öðru sæti með 13 stig, á leik inni. Silkeborg er með sjö stig í sjötta sæti.
Hólmbert og Andri leita fyrsta sigursins
Í dönsku B-deildinni spilaði Andri Rúnar Bjarnason síðasta korterið fyrir Esbjerg sem tapaði 2-1 fyrir Hvidovre. Esbjerg er aðeins með tvö stig eftir sex leiki í deildinni og er í næst neðsta sæti.
Ísak Óli Ólafsson var ekki í leikmannahópi Esbjerg.
Hólmbert Aron Friðjónsson sat þá allan leikinn á varamannabekknum er lið hans Holstein Kiel gerði 2-2 jafntefli á útivelli við Düsseldorf.
Kiel fékk þar sitt fyrsta stig á tímabilinu en liðið er í 17. sæti þýsku B-deildarinnar með eitt stig eftir fjóra leiki. Mörkin voru tvö voru þau fyrstu sem liðið skorar á leiktíðinni.