Fótbolti

Freiburg lagði Dortmund - Jafnt hjá Augsburg

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ítalinn Vincenzo Grifo fagnar glæsilegu marki sínu gegn Dortmund í dag.
Ítalinn Vincenzo Grifo fagnar glæsilegu marki sínu gegn Dortmund í dag. Philipp von Ditfurth/picture alliance via Getty Images

Dortmund laut lægra haldi gegn Freiburg, 2-1, í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Augsburg gerði jafntefli við Frankfurt í fjarveru Alfreðs Finnbogasonar.

Dortmund vann öruggan 5-2 sigur á Frankfurt í fyrstu umferð en tapaði fyrir Bayern Munchen í leik meistara meistaranna í miðri viku. Liðið heimsótti Freiburg í dag sem hafði gert jafntefli við Bielefeld í fyrstu umferðinni.

Heimamenn komust yfir eftir aðeins sex mínútna leik með frábæru aukaspyrnumarki Ítalans Vincenzo Grifo og 1-0 stóð í hálfleik. Sjö mínútum eftir að flautað var til síðari hálfleiks tvöfaldaði Ungverjinn Roland Sallai forystu liðsins. Yannik Kietel, miðjumaður Freiburgar, kom Dortmund inn í leikinn þegar hann skoraði sjálfsmark skömmu síðar, á 59. mínútu, en nær komust þeir gulklæddu ekki.

Freiburg er eftir sigurinn fjögur stig eftir tvo leiki en Dortmund er með þrjú stig.

Augsburg var án íslenska landsliðsmannsins Alfreðs Finnbogasonar, sem meiddist í vikunni, er liðið gerði markalaust jafntefli við Frankfurt í dag. Liðið er því með eitt stig en leitar síns fyrsta marks á tímabilinu, eftir 4-0 tap fyrir Hoffenheim í fyrstu umferð.

Greuter Furth og Arminia Bielefeld gerðu 1-1 jafntefli og þá vann Bochum 2-0 sigur á Mainz.

Wolfsburg fór á topp deildarinnar sem eina liðið með sex stig eftir 2-1 útisigur á Herthu Berlín þar sem Ridle Baku og Lukas Nmecha skoruðu síðla leiks til að tryggja sigurinn.

Köln og Hoffenheim geta jafnað Wolfsburg á toppnum með sigri á morgun. Köln heimsækir Þýskalandsmeistara Bayern Munchen en Hoffenheim mætir Union Berlin.

Síðar í dag mætast Bayer Leverkusen og Borussia Mönchengladbach en bæði lið eru með eitt stig eftir fyrsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×