Innlent

Blessaður leigu­­samningurinn veiti heimild fyrir merkingunum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Inga Sæland segir að sambúð flokksins og kirkjunnar hafi verið afar góð. 
Inga Sæland segir að sambúð flokksins og kirkjunnar hafi verið afar góð.  vísir/vilhelm

For­maður Flokks fólksins kannast ekkert við að sóknar­nefnd Grafar­vogs­kirkju sé ó­sátt með merkingar flokksins á kirkjunni og við hana. Hún telur skýra heimild fyrir merkingunum í leigu­samningi milli flokksins og kirkjunnar en flokkurinn leigir kjallara hennar undir skrif­stofur sínar.

Vísir greindi frá því í morgun að Guð­rún Karls Helgu­dóttir, sóknar­prestur í Grafar­vogs­kirkju, væri alls ekki sátt við að kirkjan væri nú merkt Flokki fólksins í bak og fyrir. Merkingar flokksins eru á gluggum kirkjunnar og þá er flokkurinn einnig merktur á skilti fyrir utan kirkjuna og á aug­lýsinga­fána sem blaktir þar. Guð­rún sagði að flokkurinn yrði beðinn að fjar­lægja merkingar sínar af kirkjunni.

Anna Guð­rún Sigur­vins­dóttir, for­maður sóknar­nefndarinnar, sagði þá að sam­kvæmt samningi mætti flokkurinn merkja sig við kirkjuna en að­eins við inn­gang rýmisins sem flokkurinn leigir. Hún vill meina að flokkurinn hafi farið að­eins fram úr sér.

Merkingarnar sjást greinilega í glugga á neðstu hæð kirkjunnar.vísir/vilhelm

Ekki orðið var við óánægju

Þetta kemur flatt upp á Ingu Sæ­land, for­mann flokksins:

„Þetta hlýtur nú að byggjast á ein­hverjum mis­skilningi því við erum hér með þrettándu grein í leigu­samningi sem segir að við höfum heimild í sam­ráði við leigu­sala að setja á okkar kostnað merkingar á fast­eignina, bæði innan og utan­húss á lóðina. Og síðan eigum við að fjar­lægja þær þegar leigu­töku lýkur,“ segir Inga.

Og voru merkingarnar settar upp í sam­ráði við kirkjuna?

„Já, þetta er bara samningur sem er skrifað undir. Þing­lýstur leigu­samningur.“

Spurð út í orð Önnu Guð­rúnar um að flokkurinn hafi að­eins mátt merkja sig við inn­ganginn segir Inga:

„Nei, nei, það er bara sam­komu­lags­at­riði hér sam­kvæmt 13. grein samningsins og ég held að við séum bara al­gjör­lega 100 prósent sátt með það, bæði við og leigu­salinn okkar, sem hefur tekið okkur sér­stak­lega vel.“

Blessaður leigu­samningur

Hún segir að kirkjan hafi ekki beðið flokkinn að fjar­lægja neinar merkingar. „Við höfum ekki verið beðin um neitt slíkt. Bara alls ekki. Þannig ég get ekki annað séð en að við séum bara virki­lega vel­komin og við upp­lifum okkur þannig, ætíð, og erum enda­laust þakk­lát fyrir að fá að vera á þessum fal­lega stað,“ segir Inga.

Sam­bandi sé virki­lega gott milli flokksins og kirkjunnar. „Það hefur aldrei nokkurn tíma styggðar­yrði fallið á milli okkar og ég myndi segja að þessi leigu­samningur okkar sé bara virki­lega blessaður. Við erum bara sátt,“ segir Inga. Ef kirkjan sé virki­lega svo á móti merkingunum hefur hún enga trú á öðru en að málið veðri leyst far­sæl­lega en enginn frá sóknar­nefndinni hafi enn talað við flokkinn um málið.

Eruð þið kristi­legur flokkur?

„Við alla­vega erum kristin, já við erum það. Við fylgjum alla­vega mann­gæsku og kristi­legum gildum. Við viljum koma fram við aðra eins og við viljum að sé komið fram við okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×