Innlent

Íbúi í húsi sem skotið var á: „Maður á ekki von á villta vestrinu hérna í ysta út­verfi Egils­staða“

Atli Ísleifsson skrifar
Frá vettvangi á Egilsstöðum í morgun.
Frá vettvangi á Egilsstöðum í morgun. Guðmundur Hjalti Stefánsson

„Húsið er allt sundurskotið. Það eru þrír gluggar hérna í húsinu sundurskotnir. Maður á ekki von á villta vestrinu hérna í ysta úthverfi Egilsstaða. Kannski í Reykjavík, en ekki hér.“

Þetta segir Þröstur Jónsson, íbúi í Dalseli á Egilsstöðum, í samtali við Vísi í morgun. Lögregla á Egilsstöðum skaut í gærkvöldi vopnaðan karlmann eftir að sá hafði áður skotið að húsum í Dalseli og lögreglu og neitað að leggja frá sér vopnið. Maðurinn var fluttur frá Egilsstöðum og til Reykjavíkur í sjúkraflugi.

Þröstur segir lögreglu vera búna að girða af svæðið fyrir utan hús hans og að hann geti ekki farið út sem stendur. Lögregla hafi verið að störfum fyrir utan húsið í alla nótt, en eigi enn eftir að rannsaka vettvanginn inni í húsi Þrastar, þar sem allt er nú í glerbrotum.

Frá vettvangi í Dalseli á Egilsstöðum. Vísir

 „Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með lögreglu að störfum og maður hefur séð hvað við erum með virkilega góða lögreglumenn að störfum hérna.“

Guðs mildi að ekki fór verr

Þröstur segir það guðs mildi að ekki hafi farið verr. Hann hafi verið inni í bílskúrnum þegar hann tók fyrst að heyra hvellina fyrir utan húsið. „Ég fór svo út til að kanna málið. Þá sé ég einhvern mann vera að baksa við eitthvað á bakvið bíl. Það var eitthvað sem sagði mér að fara þá aftur inn. Ég var í raun bara heppinn að hann var einmitt að hlaða riffilinn þarna. Guð má vita hvað hefði gerst ef hann hefði ekki verið í því þegar ég fór út.“

Hann segir að skömmu áður hafi sömuleiðis krakkar verið á ferli í götunni en sem betur fer verið komin inn í húsin sín.

Þröstur segist í talsverðu sjokki eftir stuttan nætursvefn. „Mér líður þó í raun ótrúlega vel miðað við aðstæður.“

Myndband frá Egilsstöðum þar sem heyra má skothvell var birt á TikTok í gærkvöldi. Það má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×