Innlent

Nýnemavígsla í skóginum þegar skotum var hleypt af í Dalseli

Snorri Másson skrifar
Selskógur er um kílómetra í loftlínu frá Dalseli.
Selskógur er um kílómetra í loftlínu frá Dalseli. Visit Egilsstaðir

Á sama tíma og skotum var hleypt af á Egilsstöðum í gær voru nýnemar við Menntaskólann á Egilsstöðum staddir á nýnemavígslu í Selskógi skammt frá. Sumir þeirra töldu sig heyra þegar skotum var hleypt af.

Selskógur er um kílómetra frá Dalseli á Egilsstöðum og nýnemarnir voru þar staddir í myrkrinu í gær. Árni Ólason skólastjóri var einnig staddur í skóginum, en telur fólk ekki hafa áttað sig á því hvað væri um að vera fyrr en eftir á.

„Menn heyrðu einhver hljóð en tengdu þetta ekki við skothvelli endilega. En með samfélagsmiðlum sáu menn þarna undir hvað var að ske í raun og veru. Menn flýttu sér meira en venjulega út úr skóginum,“ sagði Árni í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Árni segir nemendur og íbúa misslegna yfir atburðinum. Margir séu einfaldlega enn að reyna að kaupa þetta.

„Þetta er ótrúleg tímalína. Við gerum þennan hlut einu sinni á ári, en svo gerist eitthvað svona á Egilsstöðum kannski á þrjú hundruð ára fresti. Svo liggur þetta svona nálægt í tíma. Það er auðvitað bara tilviljun. En þetta var óheppilegt, gríðarlega. Fyrir utan hversu sorglegt þetta er.“

Fjöldahjálparstöð var opnuð fyrir íbúa hverfisins í gær og leituðu nokkrir þar ásjár viðbragðsaðila.

„Við erum náttúrulega búin að taka fund með nemendum fórum yfir atburðarásina og tímalínuna. Við buðum nemendum upp á aðstoð fyrir þá sem það vildu og þáðu, þannig að það var bara mjög góður fundur sem var haldinn hérna í morgun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×