Fótbolti

Reus snýr aftur og þrír nýliðar í þýska hópnum sem mætir Íslandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marco Reus hefur ekki leikið með þýska landsliðinu í tvö ár.
Marco Reus hefur ekki leikið með þýska landsliðinu í tvö ár. getty/Federico Gambarini

Þrír nýliðar eru í þýska landsliðshópnum sem mætir Liechtenstein, Armeníu og Íslandi í undankeppni HM 2022 í upphafi næsta mánaðar.

Hansi Flick tilkynnti í dag fyrsta landsliðshóp sinn eftir að hann tók við þýska liðinu af Joachim Löw eftir Evrópumótið í sumar.

Í hópnum eru þrír nýliðar, þeir Nico Schlotterbeck, David Raum og Karim Adeyemi. Þá er Marco Reus, fyrirliði Borussia Dortmund, í hópnum en hann hefur ekki leikið með þýska landsliðinu síðan 2019.

Schlotterbeck er 22 ára varnarmaður sem leikur með Freiburg. Á síðasta tímabili var hann á láni hjá Union Berlin. Raum, sem er 23 ára, er miðjumaður hjá Hoffenheim en hann kom til liðsins frá Greuther Fürth í sumar. Hinn nítján Adeyemi er framherji sem leikur með Red Bull Salzburg. Hann hefur skorað fimm mörk í fjórum leikjum í austurrísku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Mats Hummels, varnarmaður Dortmund, er ekki í þýska hópnum og þá er Toni Kroos, miðjumaður Bayern München, hættur í landsliðinu.

Þýskaland mætir Liechtenstein í St. Gallen í Sviss 2. september, Armeníu í Stuttgart 5. september og Íslandi á Laugardalsvellinum 8. september. Þjóðverjar unnu fyrri leikinn gegn Íslendingum í Duisburg, 3-0.

Þýskaland er í 3. sæti J-riðils undankeppni HM með sex stig eftir þrjá leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×