Fótbolti

Svava og stöllur í ágætis stöðu þrátt fyrir tap

Valur Páll Eiríksson skrifar
Svava Rós Guðmundsdóttir og liðsfélagar hennar í Bordeaux þurfa að vinna upp eins marks forskot Wolfsburg í síðari leiknum í Frakklandi.
Svava Rós Guðmundsdóttir og liðsfélagar hennar í Bordeaux þurfa að vinna upp eins marks forskot Wolfsburg í síðari leiknum í Frakklandi. VÍSIR/BÁRA

Landsliðskonan Svava Rós Guðmundsdóttir spilaði síðustu 25 mínúturnar er lið hennar Bordeaux frá Frakklandi tapaði 3-2 fyrir þýska stórliðinu Wolfsburg í fyrri leik umspils um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.

Svava Rós byrjaði á bekknum hjá Bordeaux sem heimsótti þær þýsku til Wolfsburgar í dag. Ewa Pajor kom Wolfsburg yfir eftir 13 mínútna leik en innan við mínútu síðar hafði hin hollenska Katja Snoeijs jafnað fyrir franska liðið.

Landa hennar Jill Roord, sem er nýkominn til Wolfsburgar frá Arsenal, kom Wolfsburg hins vegar 2-1 yfir fimm mínútum síðar, á 19. móinútu leiksins. 2-1 stóð í hálfleik.

Þriðji Hollendingurinn Dominique Janssen tvöfaldaði forystu Wolfsburgar eftir stundarfjórðungsleik í síðari hálfleik og fimm mínútum síðar kom Svava Rós inn á sem varamaður fyrir markaskorarann Snoejis. Innkoma Svövu virðist hafa haft ágætis áhrif þar sem Mickaella Cardia minnkaði muninn fyrir Bordeaux aðeins fimm mínútum eftir að hún kom inn á, á 70. mínútu leiksins.

Fleiri urðu mörkin ekki og Wolfsburg er því með 3-2 forystu í einvíginu. Liðin mætast að nýju í Frakklandi á fimmtudaginn í næstu viku en liðið sem vinnur einvígið fer í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×