Fótbolti

Öruggt hjá Häcken í Íslendingaslagnum í Meistaradeildinni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Diljá Ýr Zomers spilaði lokakaflann í öruggum sigri í Íslendingaslag kvöldsins.
Diljá Ýr Zomers spilaði lokakaflann í öruggum sigri í Íslendingaslag kvöldsins. Göteborgs Posten/Vísir

Svíþjóðarmeistarar Häcken unnu 3-1 útisigur á Noregsmeisturum Vålerenga í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í Osló í kvöld. Íslendingar mættust í leiknum.

Häcken hefur verið á mikilli siglingu heimafyrir og gerir sitt besta við að elta topplið Rosengård í baráttu liðanna um sænska meistaratitilinn. Vålerenga hefur aftur á móti fatast flugið heima fyrir eftir að liðið vann sinn fyrsta norska meistaratitil á síðasta ári og situr í fjórða sæti norsku deildarinnar.

Markalaust var framan af leik liðanna í Noregi í kvöld en Filippa Angeldal kom sænsku gestunum yfir á 32. mínútu eftir stoðsendingu Johönnu Rytting Kaneryd. Farið var eftir sömu uppskrift er Kaneryd lagði upp annað mark fyrir Angeldal undir lok fyrri hálfleiks.

Häcken leiddi 2-0 í hléi en þegar tæplega 20 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik lagði Angeldal upp mark fyrir sænska stormsenterinn Stinu Blackstenius kom gestunum 3-0 yfir. Din danska Rikke Madsen lagaði hins vegar stöðuna fyrir heimakonur á 83. mínútu og 3-1 fór leikurinn, Häcken í vil.

Íslenska landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir spilaði allan leikinn í vörn Vålerenga en Amanda Jacobsen Andradóttir kom inn á sem varamaður á 76. mínútu. Diljá Ýr Zomers spilaði síðustu 22 mínútur leiksins eftir að hafa komið inn af varamannabekk Häcken á 68. mínútu.

Liðin mætast öðru sinni í Svíþjóð í næstu viku og er Häcken í vænlegri stöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×