Á Stokkseyri er svokallaður Brimrótar hópur, sem er með aðsetur í gamla samkomuhúsinu í þorpinu, sem heitir Gimli. Hópurinn hefur skipulagt glæsilega matvæla og menningarveislu um helgina þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað gott að borða og njóta í leiðinni menningarinnar á staðnum.
Pétur Már Guðmundsson fer fyrir hátíðinni.
„Það eru framleiðendur, sem eru með okkur eins og til dæmis Korngrís, Ölvisholt, frábær Ítalskur gæi frá Þykkvabæ, sem er að búa til Salami og ýmislegt annað. Svo er það Eyrarfiskur hér á Stokkseyri og ég er örugglega að gleyma einhverju, grænmetisframleiðendur verða hérna líka og svo er það listageirinn líka hér á Stokkseyri,“ segir Pétur.

Sú dagskrá, sem tilheyrir list og menningu verður að mestu í Hólmaröst, sem er stóra rauða fyrrverandi frystihúsið á Stokkseyri en matvælaframleiðendur verða með sína kynningu utandyra á túni í miðju þorpinu. Þá verður sérstök sýning á kuklsetri í Gimli.
„Það er svo mikil matvælaframleiðsla hérna og það er svo mikil menningarframleiðsla hérna og það er svo skemmtilegt að geta tvinnað þetta saman. Mér finnst þetta bara vera mjög gleðilegt og ég vil endilega að fólk komi og kynni sér þetta hjá okkur hér um helgina“, bætir Pétur við.
