Gunný starfaði hjá KSÍ árið 2016 þar sem hún kom að málum kvennalandsliðsins í fótbolta. Hún segist hafa fundið fyrir því í hvað stefndi eftir að hún tilkynnti sambandinu að hún væri ólétt.
„Ég vissi það um leið og ég komst að því að ég væri ófrísk að það væri ekki pláss fyrir lítið barn í þessu starfi. Síðan líður tíminn og um leið og það verður opinbert að ég sé ólétt, þá breytist einhvern veginn viðmótið. Ég er tekin strax úr aðalstarfinu mínu, sem var A-landslið kvenna, og ég upplifði svona að ég væri með smitandi sjúkdóm,“
„Ég reyni að vinnuna mína eins vel og ég get en á þessum tíma er ég einhvern veginn orðin rosalega kvíðin. Ég veit í hvað stefnir en samt er ég ekki alveg viss og þegar það kemur að því að mér sé sagt upp, upplifði ég eiginlega bara létti.“ segir Gunný um uppsögnina í viðtali við Svövu Kristínu Gretarsdóttur.
Ekki endilega rétt að öll stjórnin fjúki
Mál KSÍ tengt ofbeldi landsliðsmanna í fótbolta hefur vakið mikla athygli síðustu daga. Guðni Bergsson, formaður sambandsins, sagði af sér, sem og stjórn sambandsins eftir að mikil pressa var lögð á sambandið vegna slæmrar meðhöndlunar á ofbeldismálum. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri, fór þá í leyfi vegna málsins.
Gunný hefur fylgst náið með málinu en segir ekki endilega vera rétt niðurstaða að öll stjórn sambandsins segi af sér.
„Flestir vita kannski ekki alveg hvernig starfið hér innanborðs fer fram. Ég sat á ársþinginu 2019 og mikið af þessu fólki var kosið þá og þetta er mikið af góðu fólki, með mikla reynslu innan knattspyrnuheimsins og þá sérstaklega hérna á Íslandi, og ég sé eftir fullt af þessu fólki. Stjórnin er betri með þau innanborðs heldur en utanborðs,“ segir Gunný.
Ber engan kala til Klöru eða KSÍ
Þrátt fyrir að hafa verið sagt upp með þeim hætti sem greint er frá segist Gunný ekki bera kala til sambandsins eða til Klöru Bjartmarz. Þvert á móti beri hún mikla virðingu fyrir Klöru fyrir að ná eins langt og hún hefur gert á karlavinnustaðnum sem KSÍ er. Hún kennir karllægri menningu frekar um uppsögnina.
„En ég ber ekki kala til KSÍ og ég ber ekki kala til Klöru. Það sem að ég upplifi reiðina gagnvart er bara þessi menningarheimur, þessi karllæga menning sem að við, kynslóð eftir kynslóð, ölumst upp í. Ég upplifi að þessi uppsögn sé afleiðing af þeirri menningu sem að Klara hefur þurft að berjast gegn. Og ég ber alveg ómælda virðingu fyrir Klöru sem karakter og bara sem konu í þessari starfstétt,“ segir Gunný um Klöru og bætir við:
„Það ætlar enginn að segja mér að hún hafi bara valsað hér inn og ekkert þurft að hafa fyrir þessu. Eins og hún segir sjálf er hún búin að vera hérna í 27 ár. Ég veit ekkert hlutirnir voru fyrir 27 árum síðan en ég veit bara að í dag, árið 2021, þá er rosalega margt búið að breytast. Ég dáist af því hvert hún hefur komist og fyrir mér er þetta bara afleiðing af margra ára karlaveldi.“
Gengur ekki að leita að einum blóraböggli
Gunný segir þetta því orsakast af menningunni innan sambandsins sem hún tengir við þau mál sem hafa verið í umræðunni síðustu daga. Hún segir ekki líklegt til árangurs að ráðast á staka einstaklinga vegna málsins, þar sem vandamálið sé stærra en svo.
„Ef ég blanda þessu aðeins inn í umræðuna sem er í gangi þessa dagana - mér leiðist svolítið þessi heygaflastemning. Það er alltaf verið að leita að einhverjum einum blóraböggli. Það er núna verið að ráðast á stelpurnar sem komu opinberlega fram um Kolbein [Sigþórsson, landsliðsmann] og þessi barátta á bara ekki að snúast um eina og eina persónu,“
„Þá er bara verið að ráðast á eina persónu og síðan kemur hin fylkingin og ræðst til baka og málsstaðurinn svolítið gleymist. Ég held við séum öll sammála um það að við séum dauðleið á því að verða fyrir ofbeldi. Þá tala ég bara fyrir mig sem konu, þetta á ekki að vera svona. Eitthvað þarf að breytast en við breytum engu með því að ráðast hvert á annað,“ segir Gunný.
Hún segir að uppræta þurfi þessa karllægu menningu, ekki bara innan KSÍ heldur víðar í samfélaginu. Flestir séu sammála um hvert markmiðið sé, sem sé að konur upplifi sig öruggari.
„Það er líka bara held ég það sem þarf að gerast hér innanborðs, og ábyggilega innan fleiri fyrirtækja, að stjórnsýslan þarf svolítið að breytast.“
„Við getum öll farið að keppast um sögur, hver á bestu söguna. En ég held að í heildina litið erum við öll að reyna að komast á sama stað, að maður upplifi sig öruggan, á vinnustað, á heimili og úti í samfélaginu.“ segir Gunný.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.