Marokkóska liðið flaug frá Gíneu í dag eftir að Knattspyrnusamband Afríku, CAF, tilkynnti um að leikurinn færi ekki fram. Liðið hafði æft í Conakry, höfuðborg landsins, á laugardag þegar valdaránstilraunin hófst.
Núverandi öryggis- og pólitískt ástand í Gíneu er hættulegt og CAF og FIFA fylgjast grannt með, sagði í yfirlýsingu frá sambandinu.
Áður en tilkynnt var um frestun leiksins hafði franski miðillinn L'Equipé eftir Vahid Halilhodzic þjálfara Marokkó að leikmenn og starfsfólk liðsins hafi heyrt þrálát byssuskot allan daginn.
Við erum á hóteli og byssuskot heyrast í nánd við okkur nánast allan daginn. Við erum að bíða leyfis til að yfirgefa landið en erum strandaðir sem stendur. sagði Halilhodzic í gær.
Tvennum sögum fer af valdaráninu. Breska ríkisútvarpið, BBC, greindi frá því að komið hefði verið í veg fyrir valdaránstilraunina en fréttir frá Gíneu eru á annan veg.
Varnarmálaráðherra Gíneu hefur greint frá því að valdaránstilraunin hafi ekki skilað árangri en óvíst er með framtíð forsetans Alpha Conde sem var kjörinn í þriðja sinn á síðasta ári í skugga mikilla mótmæla.