Skoðun

Íslenskur iðnaður verði sá grænasti í heimi

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Iðnaður sem losar mikið magn gróðurhúsalofttegunda á ekkert erindi á 21. öldinni. Hann verður að hætta að losa eða hætta í rekstri. Raunveruleikinn er ekki flóknari en þetta. Útfærslan getur hins vegar verið ýmis konar, hröð eða hæg, almenn eða sértæk.

Gleðitíðindin eru þau að íslenskur iðnaður stendur vel að vígi, bæði vegna tækifæra til orkuskipta og á grundvelli fyrri árangurs. Þar má nefna sjávarútveginn sem hefur dregið verulega úr losun með stórbættri orkunýtni og stóriðjuna sem er með eitt lægsta kolefnisspor á alþjóðavísu þökk sé endurnýjanlegri orkunni sem hún nýtir. Það er þó ekki nóg.

Viðreisn vill að Ísland verði kolefnishlutlaust og laust við jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Það tekst ekki nema íslenskur iðnaður taki stór skref og sé þáttakandi í breytingunum. Til þess að svo verði þarf skýr markmið stjórnvalda um losun í hverri atvinnugrein, græna hvata til að þau raungerist og samráð við atvinnulífið til að tryggja að hagkvæmasta leiðin sé farin. Þetta nær til allrar losunar á Íslandi, óháð því hvort hún er er á beinni ábyrgð Íslands (t.d. sjávarútvegur) eða falli undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir (t.d. stóriðja).

Íslenskur sjávarútvegur verði sá fyrsti til að ná kolefnishlutleysi

Sjávarútvegurinn á Íslandi er í dauðafæri til að verða fyrirmynd á heimsvísu með því að verða sá fyrsti til að ná kolefnishlutleysi. Hann hefur sýnt að aukinni verðmætasköpun þarf ekki að fylgja aukin losun gróðurhúsalofttegunda. Það hefur tekist m.a. með rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja og tilkomu orkunýtnari skipa. Nú þarf að klára dæmið og hætta allri mengandi losun.

Losun sjávarútvegsins hverfur ekki fyrr en skipin hætta að nota jarðefnaeldsneyti og nota í stað þess grænt eldsneyti sem telst endurnýjanlegt. Tæknin er nánast tilbúin og hefur danski flutningsrisinn Maersk t.d. tilkynnt að árið 2023 muni fyrsta kolefnishlutlausa stórskipið þeirra komast í gagnið. Slík skip verða knúin grænu eldsneyti á borð við metanól eða ammoníak sem vel má framleiða á Íslandi með okkar endurnýjanlegu raforku. Þannig hættum við umfram losun og aukum orkusjálfstæði Íslands.

Viðreisn leggur til að sett verði markmið um 50% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í skipum fyrir 2030 og spilar sjávarútvegurinn þar lykilhlutverk. Til að svo megi verða þarf átak. Sjávarútvegurinn þarf að setja gríðarlegan kraft í nýsköpun og hefja umbreytingu skipaflotans. Á sama tíma þurfa stjórnvöld að tryggja uppbyggingu nauðsynlegra innviða og nægt framboð grænnar raforku til að framleiða megi grænt eldsneyti fyrir orkuskiptin.

Græn raforka er ekki lengur nóg fyrir alþjóðlega stóriðju 

Grænt forskot íslenskrar stóriðju hefur hingað til fyrst og fremst falist í nýtingu raforku sem nánast engin losun fylgir. Til að halda því forskoti ætti hún að hafa metnað fyrir því að vera sú fyrsta sem framleiðir sína vöru án nokkurrar losunar. Það mætti gera með því að breyta framleiðsluferlum (t.d. kolefnishlutlaus álframleiðsla með óvirkum rafskautum) eða fanga kolefnislosun til að nýta eða farga (t.d. Carbfix aðferðin).

Kolefnishlutleysi er stóra tækifæri stóriðjunnar hér á landi enda mun kolefnishlutlaus iðnaður hafa gríðarlegt samkeppnisforskot í heiminum á komandi árum. Lausnirnar sem þarf til eru í stöðugri þróun og tækifærin bíða eftir því að verða sótt. Viðreisn mun beita sér fyrir því að stóriðja minnki losun. Þar á að beita grænum hvötum, stuðningi við nýsköpun og kröfu um að hvert fyrirtæki sem fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir birti markmið um kolefnishlutleysi og samfylgjandi aðgerðaáætlun.

Viðreisn er tilbúin í slaginn við loftslagsvána. Það sem meira er – við þekkjum lausnirnar og þorum að taka stór skref strax.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.




Skoðun

Sjá meira


×