Stofnun áætlar nú að írönsk stjórnvöld búi yfir meira en tífalt því magni af auðguðu úrani sem þeim er heimilt samkvæmt kjarnorkusamningnum sem þau gerðu við heimsveldin árið 2015. Íranir héldu áfram auðguninni eftir að Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseti, dró Bandaríkin út úr samkomulaginu árið 2018.
Í leynilegri ársfjórðungsskýrslu IAEA til aðildarríkja sinna í dag kom einnig fram að eftirlit með auðgun úrans í Íran hafi verið verulega heft frá því að írönsk stjórnvöld neituðu að veita eftirlitsmönnum stofnunarinnar aðgang að vöktunarbúnaði í landinu, að sögn AP-fréttastofunnar.
Huga þurfi að vöktunarbúnaðinum á að minnsta kosti þriggja mánaða fresti. Geta stofnunarinnar til þess að fylgjast með kjarnorkuumsvifum Írana fari því dvínandi með tímanum og sú þróun haldi áfram nema að Íranir vendi kvæði sínu í kross.
Rafael Mariano Grossi, framkvæmdastjóri IAEA, segist tilbúinn að fara til Íran til að ræða við nýkjörna ríkisstjórn landsins um framhaldið.