Erlent

Vopnað rán og eltingaleikur um hábjartan dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ránið átti sér stað um hábjartan dag.
Ránið átti sér stað um hábjartan dag. epa/Yoan Valat

Tveir menn eru í haldi lögreglu og fimm annarra er leitað eftir að vopnaðir þjófar réðust inn í verslun Bulgari í miðborg Parísar og höfðu á brott með sér skartgripi sem metnir eru á 1,5 milljarð króna.

Þrír þjófar gengu inn í verslunina klæddir jakkafötum og ógnuðu viðstöddum með skotvopnum. Þeir flúðu á gráum BMW en fjórir vitorðsmenn létu sig hverfa á rafskútum. Lögregla skaut á bifreiðina skammt frá Les Halles verslunarmiðstöðinni, sem leiddi til þess að þjófarnir komu sér út og freistuðu þess að komast undan á tveimur jafnfljótum.

Tveir þeirra náðust.

Umrædd verslun stendur við Place Vendome, skammt frá Ritz-hótelinu, og hafði nýlega verið opnuð eftir endurbætur. Fjöldi annarra lúxusverslana standa við torgið, svo sem Chanel, Boucheron og Van Cleef & Arpels.

Nokkuð hefur verið um skartgripaþjófnaði í París á undanförnum mánuðum og líklegt að glæpir og öryggismál verði meðal þeirra mála sem rædd verða í aðdraganda forsetakosninganna sem fara fram á næsta ári.

Hinn 27. júlí síðastliðinn réðist maður inn í Chaumet-verslun og hafði á brott með sér skart fyrir um 2 milljónir evra. Hann var handtekinn daginn eftir og flestir gripana endurheimtir.

Þremur dögum seinna réðust tveir menn vopnaðir rafbyssu og táragasi inn í Dinh Van-verslun og tóku með sér skartgripi metna á um 400 þúsund evrur.

Það kemur ekki fram í frétt Guardian hvort lögregla hefur endurheimt gripina sem stolið var í Bulgari-versluninni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×