Fótbolti

Diljá og Häcken í riðlakeppni Meistaradeildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Diljá Zomers og liðsfélagar hennar í Häcken eru á leið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Diljá Zomers og liðsfélagar hennar í Häcken eru á leið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. MATTHIAS KERN/BONGARTS/GETTY IMAGES

Fimm Íslendingar freistuðu þess að komast í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna í dag. Diljá Zomers og félagar hennar í Häcken slógu Vålerenga með Amöndu Andradóttir og Ingibjörgu Sigurðardóttir innanborðs úr leik með 3-2 sigri eftir að hafa unnið fyrri leik liðanna 3-1.

Stina Blackstenius kom Häcken í 1-0 á 39. mínútu og hún var búin að tvöfalda forystuna eftir rúmlega 50 mínútna leik.

Synne Jensen minnkaði muninn fyrir Vålerenga á 73. mínútu áður en Johanna Rytting Kaneryd endurheimti tveggja marka forskot fimm mínútum síðar.

Katherine Stengel minnkaði muninn í 3-2 stuttu fyrir leikslok og þar við sat. Samanlagður sigur Häcken því 6-3. Amanda Andradóttir og Ingbjörg Sigurðardóttir sitja því eftir með sárt ennið ásamt liðsfélögum sínum í Vålerenga. Diljá Zomers er hinsvegar á leið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, en hún sat allan tíman á bekk Häcken.

Guðrún Arnardóttir spilaði allan leikinn í hjarta varnarinnar þegar að lið hennar, Rosengård, gerði 3-3 jafntefli gegn þýska liðinu Hoffenheim. Þjóðverjarnir unnu fyrri leikinn 3-0 og Guðrún og liðsfélagar hennar eru því úr leik.

Svava Guðmundsdóttir kom inn á sem varamaður í liði Bordeaux sem tók á móti þýska liðinu Wolfsburg. Þjóðverjarnir unnu fyrri leikinn 3-2 og Ewa Pajor kom Wolfsburg í 1-0 forystu eftir 25 míútna leik.

Katja Snoeijs jafnaði metin tíu mínútum fyrir hálfleik og Melissa Gomes kom Bordeaux í 2-1 þegar um 20 mínútur voru til leiksloka og þar við sat.

Lokatölur eftir venjulegan leiktíma 2-1 og því þurfti að grípa til framlengingar. Ewa Pajor jafnaði metin fyrir Wolfsburg áður en Mickaella Cardia tryggði Bordeaux vítakeppni þegar átta mínútur voru eftir af framlengingunni.

Leikmenn Bordeaux klikkuðu hinsvegar á fyrstu þrem spyrnum sínum á meðan að leikmenn Wolfsburg skoruðu úr öllum sínum. Þjóðverjarnir eru því á leið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, en Svava og liðsfélagar hennar sitja eftir með sárt ennið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×