Fótbolti

„Dauðafæri fyrir Breiðablik að komast í riðlakeppnina“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Breiðablik er á barmi þess að komast í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
Breiðablik er á barmi þess að komast í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. vísir/hulda margrét

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, segir að Breiðablik sé í dauðafæri til að komast í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

Breiðablik mætir Osijek í seinni leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppninni í dag. Fyrri leiknum í Króatíu lyktaði með 1-1 jafntefli.

Þorsteinn er fyrrverandi þjálfari Breiðabliks og segir að sitt gamla lið eigi afbragðs góða möguleika á að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar sem yrði gott, ekki bara fyrir Blika heldur öll lið á Íslandi.

„Það yrði frábært skref og gott fyrir alla að íslenskt lið komist sem lengst. Það hjálpar öðrum liðum líka upp á möguleika á að komast áfram. Það gefur líka öðrum liðum meiri pening, held ég. Þau fá líka greitt fyrir árangur Breiðabliks,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi KSÍ á mánudaginn þar sem hann kynnti landsliðshópinn fyrir leikinn gegn Hollandi í undankeppni HM 2023.

„Þetta skiptir máli og þetta sýnir að við erum komin ágætlega langt. Það er ekki langt á milli okkar og liðanna sem eru á mörkum þess að komast í riðlakeppnina. Þetta er dauðafæri fyrir Breiðablik. Að mínum dómi, með eðlilegum og góðum leik, þá vinna þær þetta lið.“

Búið er að breyta fyrirkomulaginu í Meistaradeildinni og stórauka verðlaunaféð. Ef Breiðablik kemst í riðlakeppnina fær liðið að lágmarki 75 milljónir króna.

Riðlakeppni Meistaradeildarinnar hefst 5. október og lýkur 16. desember. Dregið verður í riðla á mánudaginn. Útsláttarkeppnin hefst svo í mars á næsta ári.

Leikur Breiðabliks og Osijek hefst klukkan 17:00 í dag og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×