Þórhildur Gyða kærði Kolbein fyrir ofbeldi árið 2017 áður en fallið var frá kæru eftir að hann greiddi henni miskabætur. Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður birti á sunnudag gögn úr yfirheyrslu yfir Þórhildi.
Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður Þórhildar segir birtinguna afar óvenjulega og skoðar nú hvort kæra eigi Sigurð til lögreglu.
„Hvort að þetta sé brot gegn persónuverndarlögum, almennum hegningarlögum eða einhverjum öðrum lögum eða reglum,“ segir Gunnar.
Eina leiðin gallað kerfi
Gunnar bendir á að í umræðu síðustu daga hafi konur sem stigið hafa fram og sagt frá ofbeldi verið rengdar, einkum á grundvelli þess að þær hafi ekki farið með mál sín gegnum réttarvörslukerfið og dómstóla. Mál Þórhildar sýni að þetta kerfi hafi brugðist. Og af þessu hefur Gunnar verulegar áhyggjur.
„Í máli þar sem kona kærir og gerandinn hefur gengist við háttseminni og greitt bætur, að það sé farið að birta gögn í málinu í því skyni að gera lítið úr henni og ekki bara það heldur er verið að drusluskamma hana í leiðinni.“
Þá vísar Gunnar til þess að Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hafi „líkað við“ og deilt færslu Sigurðar þar sem gögnin voru birt. Umbjóðandi hans sé miður sín vegna málsins.
„Þetta er kerfið sem konum er sagt að sé eina leiðin sem þær verða að fara í svona málum.“
En er fordæmi fyrir því að lögmenn hafi þurft að sæta viðurlögum fyrir eitthvað sambærilegt? Gunnar vísar þar til prófessorsmálsins svokallaða, þar sem hæstaréttarlögmaðurinn Jón Steinar Gunnlaugsson átti í hlut.
„Því máli lauk með því að þessi lögmaður fékk úrskurð frá úrskurðarnefnd lögmanna að hans framganga í málinu samræmdist ekki góðum lögmannsháttum.“