Umfjöllun: Þór/KA - Kefla­vík 0-0 | Gestirnir áfram í efstu deild að ári

Árni Gísli Magnússon skrifar
Keflavík þarf stig í dag.
Keflavík þarf stig í dag. Vísir/Hulda Margrét

Þór/KA mætti Keflavík á Salt Pay-vellinum á Akureyri í dag í lokaumferð Pepsi Max deildar kvenna. Leikurinn var tíðindalítill og lauk með markalausu jafntefli.

Þór/KA sem voru í 7. sæti fyrir leikinn gátu með sigri, ásamt hagstæðum úrslitum annarsstaðar, enn endað í 5. sæti deildarinnar. Keflavík aftur á móti í 8. sæti deildarinnar, þremur stigum á undan Tindastóli og gat enn tölfræðilega fallið ef liðið myndi tapa og Tindastóll vinna sinn leik en þá þyrfti 6 marka sveifla einnig að eiga sér stað svo liðið myndi falla á markatölu. 

Harla ólíklegt, enda fór það svo að Keflvíkingar héldu sér örugglega uppi. Þór/KA fór með stiginu upp fyrir ÍBV í 6. sæti á markatölu.

Fyrri hálfleikurinn var mjög bragðdaufur og var ljóst frá byrjun að Keflavík ætlaði að liggja til baka og freista þess að ná í stig. Þór/KA reyndi að byggja upp sóknir sem gekk mjög illa. Aerial Chavarin lokaði á Örnu Sif allan leikinn og lét hina ungu Iðunni Rán bera boltann upp völlinn. 

Þegar heimakonur fóru svo framar á völlinn voru þær ekki nógu beittar og enduðu sóknir þeirra á því að þær annað hvort misstu boltann eða áttu skot fram hjá marki gestanna.

Á 42. mínútu var Aerial Chavarin komin inn á teig og Saga Líf renndi sér í hana, felldi hana og vildi Keflavík fá víti en Sveini Arnari, dómara leiksins, lét sér fátt um finnast og dæmdi ekkert.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað, líkt og sá fyrri, en Þór/KA settu meiri kraft í sóknir sínar þegar líða fór á. Colleen Kennedy og Margrét Árnadóttir átti báðar skot langt utan af velli sem Tiffany Sornpao, markvörður Keflavíkur, varði í slánna í bæði skiptin en hún greip oft vel inn í þegar boltinn sveif inn í teig gestanna.

Aerial Chavarin reyndi að búa til eitthvað í fremstu víglínu og komst í nokkrar ágætar stöður en Arna Sif fleygði sér fyrir nokkur skot hjá henni og aftraði henni í að koma almennilegu skoti á rammann.

Colleen Kennedy átti svo síðustu tilraun dagsins á síðustu andartökum leiksins en skot hennar fór framhjá og markalaust jafntefli niðurstaðan.

Af hverju varð jafntefli?

Keflavík lá til baka frá byrjun og reyndi liðið að ná jafntefli sem þeim tókst. Þór/KA nýtti ekki þau fáu tækifæri sem liðið fékk og því skildu liðin jöfn.

Hverjar stóðu upp úr?

Arna Sif fór fyrir liði sínu í varnarleiknum þegar á reyndi og leyfði Aerial Chavarin ekki að komast nógu nálægt marki Þór/KA til að koma boltanum í netið. Colleen Kennedy átti einnig fína spretti og var hættulegasti leikmaður liðsins í dag.

Hjá gestunum var framherjinn Aerial Chavarin ógnandi en var óheppin að þurfa að eiga við Örnu Sif í dag. Tiffany Sornpao var flott í markinu og greip oft vel inn í og virkaði virkilega örugg.

Hvað gekk illa?

Uppspilið hjá Þór/KA gekk virkilega illa í dag. Iðunn Rán bar boltann nær alltaf upp og kom honum á leikmenn framan á vellinum sem höfðu oft mikið opið svæði fyrir framan sig sem þær nýttu ekki og sendu boltann alltof oft til baka þegar engin press var á þeim.

Sömuleiðis gekk illa hjá Keflavík að sækja en þær gerðu í raun enga tilraun til þess.

Hvað gerist næst?

Þetta var lokaumferðin og eru liðin því komin í frí í bili. Þór/KA endar í 6. sæti með 22. stig. Keflavík endar í 8. sæti með 18 stig.

Ég hef bara sjaldan upplifað aðra eins liðsheild hjá neinu liði

Gunnar Magnús, þjálfari Keflavíkur.vísir/vilhelm

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, var sáttur með að halda Keflavík áfram í deild þeirra bestu eftir markalaust jafntefli við Þór/KA fyrir norðan.

„Spilaðist bara svona nákvæmlega eins og flestir hefðu haldið fyrir leikinn. Þetta eru tvö mjög öflug varnarlið og gefa fá færi á sér þannig hann spilaðist svolítið eftir því bara. Það var náttúrulega meira undir hjá okkur, við vorum að berjast fyrir sæti okkar í deildinni og frammistaðan hjá liðinu var bara virkilega flott og varnarleikurinn til mikillar fyrirmyndar.”

Iðunn Rán Gunnarsdóttir, sem er fædd árið 2005, byrjaði leikinn í hjarta varnarinnar hjá Þór/KA í dag og var ljóst að Keflavík vildi láta hana bera boltann upp frekar en Örnu Sif þar sem að Aerial Chavarin lokaði alltaf á Örnu Sif í uppspili heimakvenna.

„Já það var algjörlega planið, eðlilega, við höfum verið að verjast vel og eins og ég segi eru þetta tvö af bestu varnarliðum deildarinnar og það var planið og það gekk bara mjög vel upp.

Keflavík var spáð falli af mörgum fyrir tímabilið og var útlitið heldur svart þegar fimm umferðir voru eftir og liðið á botninum. Gunnar er því gríðarlega sáttur með liðið á tímabilinu.

„Já já auðvitað gríðarlega ánægður með að halda sætinu og það voru margir sem spáðu okkur niðri og enn fleiri sem spáðu okkur niðri þegar fimm umferðir voru eftir, þá leit prógramið ekkert svakalega vel út þar sem við vorum á botninum og áttum eftir að fara til Eyja, áttum eftir að fara á Krókinn og áttum eftir að koma hingað (til Akureyrar) og svo áttum við eftir að fá tvö bestu lið landsins í heimsókn en við fórum í gegnum þessa fimm leiki taplausar og það er bara gríðarlega vel gert og karakter og liðsheild. Þessar stelpur, ég hef bara sjaldan upplifað aðra eins liðsheild hjá neinu liði, þær voru frábærar í sumar og sérstaklega í síðustu fimm umferðunum.”

„Já sem nýliði þá er ekki annað hægt en að vera sáttur við það að liðið haldi sér uppi. Við fórum beint niður fyrir tveimur árum og við fengum svolítið af þeirri reynslu í ár, þá vorum við með mjög ungt lið en erum eðlilega með reynslumeira lið núna og það hjálpaði okkur mikið”, bætti Gunnar við.

En ætlar liðið að leggja enn meira í sölurnar á næsta ári og styrkja hópinn?

„Við verðum bara að sjá hvað verður og ég er náttúrulega búinn að vera með þetta lið í sex ár sem er andskoti langur tími og þá bara sest maður niður og hvílir sig aðeins, þetta er alveg búið að taka vel á þetta tímabil. Bara klúbburin sem slíkur, það er mikið og gróskumikið starf í yngri flokkunum, mikið af ungum stelpum að koma upp, það hefur verið smá svona gat en þær eru að detta inn núna og það er bara spennandi hvernig sem það verður að byggja með þetta lið á næstu árum.”

„Samningurinn minn er útrunninn og það er bara no comment”, sagði Gunnar að lokum þegar hann var spurður hvort hann myndi halda áfram með liðið.

Við stefnum alltaf hærra

Andri Hjörvar er þjálfari Þórs/KA.Vísir/Hulda Margrét

„Mér fannst þetta bara fínn leikur. Keflavík bæði náttúrlega höfðu að aðeins meiru að keppa heldur en við en mér fannst við koma með bara kraft og sjálfstraust í leikinn og áttum bara nokkuð góðan leik. Mér fannst fyrri hálfleikur reyndar kannski aðeins betri en bara virkilega stoltur af stelpunum.”

Keflavík lá mjög neðarlega á vellinum í dag og leyfðu Þór/KA alfarið að stjórna leiknum. Andri bjóst við að þær myndu reyna pressa aðeins meira en raun varð.

„Jú kannski sko en ég átti alveg eins von á því að þær myndu kannski pressa aðeins í byrjun og valda einhverjum skjálfta hjá okkur en nei nei ég held að þær hafi bara spilað sinn leik og eins og þær gera það best, þær eru bara skipulagðar og þéttar og verjast vel og kredit til þeirra hvað það varðar en nei nei ekkert surprise neitt þannig lagað.”

Með hagstæðum úrslitum hjá sínu liði og sigri hjá Tindastóli hefði Þór/KA náð 5. sæti og það var markmiðið hjá liðinu í dag.

„Það var uppleggið fyrir þessa lokaumferð að reyna fara aðeins hærra í töflunni og 5. sætið var í boði. Við vildum það svo sannarlega en það gekk ekki í dag þannig að við vonum að næsta ár verði gæfuríkara.”

Með stiginu sem Þór/KA fékk í dag fór liðið upp í 6. sæti sem Andri segir ánægjulegt eftir erfitt timabil á köflum.

„Jú jú að sjálfsögðu eins og ég segi þetta var erfitt á köflum jú jú en tímabilið yfir heildina ef maður lítur á það þá erum við að tapa sex leikjum, það er ekkert svo slæmt þannig lagað. Við erum að ná í sterk jafntefli hér og þar og svo erum við að missa nokkra leiki kannski niður í jafntefli, leiki sem við hefðum viljað taka þrjú stig þannig að svona all in all er þetta nokkuð gott tímabil hjá okkur. Við erum með hörku stelpur og bara þéttar stelpur, samheldnar stelpur, og hópurinn búinn að vera bara virkilega góður og sprækur í allt sumar. Við erum greinilega erfitt lið til að brjóta á bak aftur og það er ekki sjálfgefið.”

Mikið af ungum stelpum hafa fengið tækifæri hjá Þór/KA í sumar og er Andri hæstánægður með frammistöðu þeirra og reynsluna sem þær munu byggja á.

„Jú jú að sjálfsögðu, auðvitað hefði maður kannski viljað setja fleiri mínútur á þessar stelpur en þær held ég að hafi nýtt þetta sumar vel bara til þess að læra að spila með góðu liði og bara læra á hverjum degi og hverri einustu æfingu að taka allt inn og þær eiga mikið hrós fyrir þolinmæðina og hugarfarið sem þær sýndu í sumar þessar ungu stelpur. Þær eru ótrúlega efnilegar og þær verða halda sig við efnið og þá er framtíðin björt.”

Er Andri farinn að hugsa um næsta tímabili og hvernig hann vilji þá styrkja hópinn?

„Við stefnum alltaf hærra en hvað hópinn varðar þá er ég ekkert farinn að hugsa neitt rosalega mikið um það, ég ætla bara að gefa sjálfum mér núna kannski tveggja vikna frí aðeins og svo fara að pæla í þessu. Auðvitað er maður með einhverjar hugmyndir og við viljum ákveðna hluti en það kemur bara í ljós á næstu vikum hvernig það verður.”

„Já það ætla ég að vona, ég á eitt ár eftir!” Sagði Andri léttur í bragði þegar hann var spurður hvort hann yrði áfram með liðið.


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira