Fótbolti

Ron­aldo jafnar met í fyrsta Meistara­deildar­leiknum með Man United í tólf ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar marki með Manchester United um síðustu helgi.
Cristiano Ronaldo fagnar marki með Manchester United um síðustu helgi. EPA-EFE/PETER POWELL

Cristiano Ronaldo er í byrjunarliði Manchester United á móti svissnesku meisturunum í Meistaradeildinni í dag.

Ronaldo skoraði tvö mörk í fyrsta leiknum í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær stillir honum aftur upp í byrjunarliðinu í Bern.

Það þýðir að Ronaldo mun spila sinn 177. leik í Meistaradeildinni og jafnar með því leikjamet markvarðarins Iker Casillas en enginn hefur spilað fleiri leiki í Meistaradeild Evrópu.

Ronaldo hefur unnið Meistaradeildina fimm sinnum þar af einu sinni með Manchester United. Hann lék síðast með Manchester United í Meistaradeildinni á móti Barcelona í úrslitaleiknum á Ólympíuleikvanginum í Róm 27. maí 2009.

Ronaldo hefur skorað 134 mörk í 176 leikjum í Meistaradeildinni fyrir Manchester United, Real Madrid og Juventus. Hann er sá markahæsti í sögu keppninnar.

Solskjær gerir samt þrjár breytingar á byrjunarliði sínu en þeir Donny van de Beek, Fred og Victor Lindelof koma allir inn en Raphael Varane, Nemanja Matic og Mason Greenwood fara á bekkinn í staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×