Fótbolti

Fékk sitt annað gula spjald áður en hann fékk það fyrsta

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Anthony Taylor stingur rauða spjaldinu í vasann.
Anthony Taylor stingur rauða spjaldinu í vasann. Stanislav Vedmid/DeFodi Images via Getty Images

Denys Garmash, leikmaður Dynamo Kiev, virtist heldur hissa þegar að dómarinn Anthony Taylor sýndi honum gult og síðan rautt í leik liðsins gegn Benfica í Meistaradeild Evrópu í gær. Ástæðan er líklega sú að þetta var fyrsta gula spjald Garmash í leiknum.

Atvikið átti sér stað undir lok leiksins sem endaði með markalausu jafntefli. Garmash lyfti þá tökkunum heldur hátt og fékk réttilega að líta gula spjaldið, en bjóst líklega ekki við því að rautt spjald myndi fylgja viðstöðulaust. Eins og gefur að skilja olli atvikið miklum ruglingi meðal leikmanna.

Anthony Taylor var þó bent á mistök sín, og Garmash fékk því að klára leikinn, aðeins með gult spjald.

Atvikið minnir óneitanlega á það þegar að Graham Poll gaf króatíska varnarmanninum Josip Simunic þrjú gul spjöld í leik gegn Ástralíu á HM 2006, áður en að rauða spjaldið fór loks á loft. Þau mistök voru þó ekki leiðrétt og Simunic fékk að hanga inni á vellinum mun lengur en hann hefði átt að gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×