Íslenski boltinn

Fór til London í skoðun og að­gerð vegna þrá­látra meiðsla

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Borg í baráttunni við Brynjar Hlöðversson í leik Fylkis og Leikni R.
Arnór Borg í baráttunni við Brynjar Hlöðversson í leik Fylkis og Leikni R. Vísir/Hulda Margrét

Arnór Borg Guðjohnsen, leikmaður Fylkis í Pepsi Max deild karla í fótbolta, hefur loks fengið úr því skorið hvað er að hrjá hann. Eftir að hafa verið meira og minna meiddur í nær allt sumar hefur komið í ljós að hann er með nárakviðslit.

Frá þessu er greint á vef Fótbolti.net en Arnór Borg var þar í stuttu spjalli. Hann segir að meiðslin hafi verið að plaga hann síðan í apríl og að endurhæfingin ætti að taka um það bil mánuð en skera þurfti upp á bæði hægri og vinstri nára leikmannsins.

Hinn tvítugi Arnór Borg – sem fagnar 21. árs afmælinu á morgun – hefur verið meira og minna meiddur síðan í apríl á þessu ári. Lítið hefur verið vitað um meiðslin en nú loks hefur hann fengið rétta meðhöndlun. 

Það er þó ljóst að hann mun ekki leika meira með Fylki á þessari leiktíð en félagið er í bullandi fallbaráttu.

Arnór Borg gekk í raðir Fylkis á síðustu leiktíð og spilaði þá 19 leiki í deild og bikar. Þrátt fyrir meiðslin hefur hann spilað alls 11 leiki í sumar. Samningur hans rennur út í haust en Arnór Borg hefur verið mikið orðaður við Víking í sumar.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×