Íslenski boltinn

Jóhannes Karl: Hugarfarið skiptir öllu máli

Andri Már Eggertsson skrifar
Jóhannes Karl var eðlilega sáttur með stórsigur sinna manna.
Jóhannes Karl var eðlilega sáttur með stórsigur sinna manna. Vísir/Bára Dröfn

ÍA lyfti sér uppúr fallsæti með 5-0 stórsigri gegn Fylki. Það gekk allt upp í seinni hálfleik hjá ÍA sem kjöldró Fylki. Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var afar glaður eftir leik.

„Þetta var frábær frammistaða, við mættum grimmir inn í leikinn. Við bjuggumst við að Fylkir myndi spila þéttan varnarleik, við þurftum því að vera þolinmóðir.“

„Ég er virkilega ánægður með hvernig strákarnir mínir spiluðu þennan leik. Það getur verið erfitt að spila við lið sem er einum færri. Við keyrðum vel á þá einum fleiri. Það sem uppskar sigurinn var pressan, viljinn og vinnusemin eftir rauða spjaldið,“ sagði Jóhannes Karl eftir leik.

Seinni hálfleikur ÍA var frábær og skilaði fjórum mörkum.

„Við vissum að orkan væri með okkur í liði eftir að Fylkir spilaði framlengdan leik í bikarnum. Við gerðum síðan nokkrar breytingar til að fá ferskar fætur í leikinn. Í seinni hálfleik héldum við boltanum vel og sköpuðum fleiri færi.“

Það er afar góður taktur í liði ÍA sem hefur unnið þrjá leiki í röð.

„Við lentum í áföllum snemma í mótinu, það var mikið um meiðsli í undirbúningnum fyrir tímabilið. Það var þó stígandi í okkar leik sem við tókum eftir. Hugarfarið hjá strákunum skiptir öllu máli. Það er mikilvægur leikur gegn Keflavík í síðustu umferð sem við ætlum að mæta í af miklum krafti,“ sagði Jóhannes Karl að lokum.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×