Viðskipti innlent

Goog­le taldi mikla eftir­spurn eftir ís­lensku appi vera net­á­rás og lokaði

Eiður Þór Árnason skrifar
Adam Viðarsson og Guðmundur Egill Bergsteinsson, stofnendur Lightsnap.
Adam Viðarsson og Guðmundur Egill Bergsteinsson, stofnendur Lightsnap. Aðsend

Íslenska appið Lightsnap hefur gert gott mót í Svíþjóð en þjónustan gerir notendum kleift að taka ljósmyndir sem þeir fá ekki að sjá fyrr en prentuð eintök eru send heim að dyrum.

Er appinu ætlað að líkja eftir einnota myndavélum sem margir kannast við að hafa mundað við ýmis tækifæri fyrir tíma snjallsímans.

Opnunin í Svíþjóð gekk ekki stórslysalaust fyrir sig en að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins lokaði Google skyndilega fyrir nýskráningar hjá Lightsnap þegar sjálfvirk kerfi tæknirisans töldu að netárás skýrði mikla ásókn í þjónustu íslenska sprotafyrirtækisins. 

Vegna þessa var fólki gert ókleift að skrá nýjan notenda hjá Lightsnap í um tólf tíma. Eftir að vandamálið var leyst byrjuðu nýskráningar að streyma inn á ný.

Notendur þurfa að bíða eftir því að fá myndirnar sendar heim að dyrum.Lightsnap

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lightsnap en eftir góðan árangur á Íslandi vildu stofnendur færa út kvíarnar og semja við prentsmiðjur og póstdreifingaraðila í Svíþjóð.

Afrakstri þeirrar vinnu var hleypt af stokkunum þann 14. september síðastliðinn og fengu fyrstu 2.000 notendurnir að prenta fría prufumynd.

„Við hrintum af stað áhrifavaldaherferð og viti menn, Svíarnir hoppuðu svo sannarlega á vagninn,“ segir Guðmundur Egill Bergsteinsson, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Lightsnap, í tilkynningu.

Tóku fyrstu skrefin á Íslandi

Guðmundur segir að markmiðið hafi verið að reyna að fylgja eftir árangri þeirra á Íslandi þar sem viðskiptavinir Nova fengu að prófa þjónustuna með því að prenta eina mynd sér að kostnaðarlausu.

Að sögn Guðmundar keypti tæpur helmingur þeirra sem notuðu prufuna nýja „filmu“ á innan við sjö dögum. Lightsnap fór í gegnum íslenska viðskiptahraðalinn Startup Supernova sumarið 2020 og var þjónustan þá fyrst gerð aðgengileg Íslendingum. Nú í sumar var síðan opnað fyrir evrópskan markað.

Stofnendur fyrirtækisins kynntu hugmyndina á Startup Supernova í fyrra. Horfa má á kynninguna í spilaranum.

„Aðeins 12 tímum eftir að hafa gefið appið út í Svíþjóð sprengdum við nýskráningarfjöldann hjá Google og mikil eftirvænting skapaðist þar sem fjöldinn allur af fólki hafði samband sem komst ekki inn í Lightsnap. Við hringjum í Google og reynum að leysa úr þessu en þeir svara að það hafi verið slökkt á okkur þar sem grunur var um netárás á kerfið okkar,” segir Guðmundur.

Nýtur vinsælda í brúðkaupum og hjá nýjum foreldrum

Fram kemur í tilkynningu að yfir 4.000 noti nú Lightsnap á Íslandi sem hafi sent yfir 25 þúsund prentaðar ljósmyndir á síðastliðnu ári.

„Við ákváðum að bæta við 2000 fleiri fríum filmum þar sem að viðtökur voru svo ótrúlegar og hlökkum til að sjá hvernig Svíarnir taka í að sjá myndirnar sínar í fyrsta sinn við heimsendingu eins og í gamla daga” segir Guðmundur í tilkynningu. Um leið og myndirnar eru sendar af stað eru þær einnig aðgengilegar á stafrænu formi í Lightsnap appinu.

Notendaviðmót Lightsnap. LightSnap

Að sögn Guðmundar hefur appið notið vinsælda í kringum veislur og brúðkaup auk þess sem nýbakaðir foreldrar noti það til að fanga fyrstu skref í lífi barna sinna.

„Upplifun myndanna verður svo miklu sterkari þegar þú mátt ekki sjá þær beint. Ímyndaðu þér að taka augnablikið þegar þú segir fjölskyldu og vinum að þú sért barnshafandi eða þegar barnið þitt er að stíga sín fyrstu skref. Þegar maður fær síðan að sjá þessar myndir á í prentuðu formi verða minningarnar miklu raunverulegri en maður hefði séð þær í gegnum farsíma og síðan er það líka bara ótrúlega skemmtilegt,“ segir Adam Viðarsson, tæknistjóri og annar meðstofnandi Lightsnap.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×