Skoðun

Vinnum á undirmönnun heilbrigðiskerfisins

Sigrún Elsa Smáradóttir skrifar

Á Íslandi viljum við hafa jafnan aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Það felst í fleiru en að byggja og reka sjúkrahús og heilsugæslu. Það þarf líka að tryggja að þessar stofnanir hafi starfsfólk til að halda uppi heilbrigðisþjónustu.

Mönnunarvandi heilbrigðisþjónustu

Ísland er þegar fyrir neðan meðaltal þjóða Efnahags- og framfarastofnunar (OECD), sé miðað við leiðréttar tölur sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur lagt fram um fjölda starfandi hjúkrunarfræðinga á hverja 1000 íbúa. Einnig hefur félagið bent á að 4.-5. hver hjúkrunarfræðingur hættir eftir 5 ár í starfi.

Það er ljóst að þegar uppi er staðið er of fáliðað starfslið ávísun á aukin útgjöld í formi yfirvinnu og aukinna veikinda af völdum álags og streitu auk þess að geta skapað hættu fyrir skjólstæðinga kerfisins.

Það eru allir sammála um að mikið hefur mætt á hjúkrunarfræðingum í Covid-faraldrinum, við skipulagningu, umönnun og bólusetningu og hefur stéttin og aðrar heilbrigðisstéttir staðið þessa vakt með miklum sóma. Rétt er að líta til þess að hjúkrunarfræðingar starfa nú samkvæmt kjarasamningum sem eru niðurstaða gerðardóms, sem hjúkrunarfræðingar sjálfir voru mjög ósáttir við. Til að tryggja mönnun sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana til framtíðar er mikilvægt að vinna með markvissum hætti að því að ná sátt í samningum um starfsumhverfi og kjör stétta.

Heilbrigðisstarfsfólk hefur frestað sumarfríum og jafnvel fæðingarorlofi til að vinna meðan faraldur geisar, en það er hætt við því að eftir að við erum komin fyrir vind hvað Covid varðar þá hafi margir fengið nóg. Því er nauðsynlegt að bregðast við og skapa sátt.

Aðgerðir

Bregðast þarf við brotthvarfi hjúkrunarfræðinga úr starfi og grípa til aðgerða til að hvetja hjúkrunarfræðinga og jafnvel aðrar heilbrigðisstéttir til að starfa áfram á sínu fagsviði.

Covid tengdar álagsgreiðslur eru eitt en svo eru einnig atriði sem horfa til framtíðar eins og t.d. að ríkið greiði af námslánum þeirra meðan þau starfa hjá ríkinu að heilbrigðisþjónustu.

En fyrst og fremst þarf að taka upp samtalið og semja við þessar stéttir, þannig að þær starfi eftir kjarasamningum sem eru niðurstaða samninga en ekki ákvarðana gerðardóms.

Höfundur er framkvæmdastjóri og skipar 3. sæti Framsóknarflokksins í Reykjavík suður.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×