Innlent

Rússneskir tölvuþrjótar með tölvukerfi íslensks fyrirtækis í gíslingu

Samúel Karl Ólason skrifar
Tölvuþrjótarnir krefjast tuga milljóna króna í lausnargjald.
Tölvuþrjótarnir krefjast tuga milljóna króna í lausnargjald. Getty

Hakkarar frá Rússlandi hafa náð tökum á tölvukerfi íslenska fyrirtækisins Geislatækni. Tölvuþrjótarnir brutust inn í kerfið aðfaranótt föstudags og krefjast þeir tuga milljóna í lausnargjald.

Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins þar sem rætt var við Grétar Jónsson, framkvæmdastjóra Geislatækni. Hann segir að ekki komi til greina að borga lausnargjaldið.

Grétar segir að tölvuþrjótarnir rússnesku hafi krafist 200 þúsund dala í dag og sú upphæð tvöfaldist á morgun. Það samsvarar um 26 milljónum króna annars vegar og 52 milljónum hins vegar.

Geislatækni sker og beygir stál í háþróuðum og tölvustýrðum vélum. Þar sem tölvukerfi fyrirtækisins hefur verið læst er ekki hægt að nota vélarnar og aðra hluta tölvukerfisins.

Í samtali við RÚV segir Grétar að haft hafi verið samband við lögreglu og sérfræðingur frá Europol hafi tekið afrit af vefþjóni þeirra. Sérfræðingar séu að reyna að ná tökum á kerfinu aftur. Hann segir að vitað sé hverjir þrjótarnir eru, þeir séu þekktir hakkarar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×