Innlent

Búið að aflétta lokunum innanbæjar á Sauðárkróki

Eiður Þór Árnason skrifar
Sauðárkrókur í vetrarbúningi. Myndin er úr safni.
Sauðárkrókur í vetrarbúningi. Myndin er úr safni. Vísir/Jóhann

Búið er að aflétta lokunum innanbæjar á Sauðárkróki sem voru settar á vegna gruns um krapastíflu í Sauðá. Skoðun sérfræðinga eftir að veður gekk niður leiddi í ljós að rennsli er orðið eðlilegt að nýju.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra en þar með er öllum aðgerðum lokið við Sauðá sem Sauðárkrókur er kenndur við.

Fyrr í dag bárust lögreglunni upplýsingar um að Sauðá væri hætt að renna að mestu leyti. Talið var að krapastífla hafi myndast í henni og var biðlað til fólks að vera ekki á ferð við ánna eða í nágrenni.

Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að loka gatnamótum Skagfirðingabrautar, Hegrabrautar og Sæmundarhlíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×