Fótbolti

Töpuðu á Hlíðarenda fyrir þremur árum en unnu Real Madrid á Bernabéu í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn fagna marki á móti Sheriff Tiraspol í Evrópukeppninni fyrir þremur árum.
Valsmenn fagna marki á móti Sheriff Tiraspol í Evrópukeppninni fyrir þremur árum. Visir/Vilhelm

Sigur Valsmanna á Sheriff Tiraspol fyrir rúmum þremur árum var settur í aðeins annað ljós eftir úrslitin á Santiago Bernabéu í gærkvöldi.

Real Madrid snéri aftur heim á uppgerðan Bernabéu leikvang í Meistaradeildinni í gærkvöldi en gestirnir frá Moldóvu eyðilögðu þá endurkomuveislu með því að vinna mjög óvæntan 2-1 sigur.

Sheriff liðið er þar með á toppi riðilsins með fullt hús eftir þennan 2-1 sigur á Real Madrid og svo 2-0 sigur á Shakhtar Donetsk í fyrstu umferðinni.

Eftir þetta ævintýri Moldóvana er ekki annað hægt en að rifja upp æsispennandi viðureign liðsins við Val fyrir rúmum þremur árum.

16. ágúst 2018 voru Valsmenn grátlega nálægt því að slá út umrætt lið Sheriff Tiraspol í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Sheriff Tiraspol vann fyrri leikinn 1-0 í Moldóvu en fór svo áfram á fleiri mörkum á útivelli eftir 2-1 tap á móti Val á Hlíðarenda.

Haukur Páll Sigurðsson og Patrick Pedersen skoruðu mörk Valsmanna en gestirnir í Sheriff Tiraspol skoruðu markið mikilvæga þegar þeir jöfnuðu á 68. mínútu.

Pedersen kom Valsliðið aftur yfir á 90. mínútu og svo fengu Hlíðarendapiltar fjögur dauðafæri til að skora þriðja markið og tryggja sér sæti í næstu umferð.

Sheriffmenn björguðu meðal annars tvisvar á marklínunni og Birkir Már Sævarsson átti skalla í slá. Valsmenn féllu því úr leik á grátlegan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×