Ronaldo hetja Manchester United gegn Villarreal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ronaldo tryggði Man Utd sigurinn í kvöld.
Ronaldo tryggði Man Utd sigurinn í kvöld. David S. Bustamante/Getty Images

Cristiano Ronaldo reyndist hetja Manchester United þegar liðinu tókst loksins að vinna Villarreal er þau mættust í F-riðli Meistaradeildar Evrópu. Lokatölur 2-1 heimamönnum í vil þar sem sigurmarkið kom undir lok uppbótartíma.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og pressuðu stíft en það skilaði þó ekki skotum á markið. Diego Dalot var í hægri bakverði Manchester United þar sem Aaron Wan-Bissaka er í leikbanni eftir að hafa fengið rautt spjald í tapinu gegn Young Boys í fyrstu umferð.

Dalot átti vægast sagt erfitt uppdráttar framan af leik og ef ekki hefði verið fyrir stórleik David De Gea í marki Man United í fyrri hálfleik hefði Dalot verið refsað fyrir hörmulegan varnarleik. Staðan þó markalaus í hálfleik og portúgalski bakvörðurinn gat andað léttar.

David De Gea þurfti að taka á honum stóra sínum trekk í trekk í kvöld.EPA-EFE/Peter Powell

Hann virtist hins vegar enn vera að ná andanum er síðari hálfleikur hófst en Paco Alcacer kom þá Villarreal yfir með marki af stuttu færi eftir fyrirgjöf Arnaut Danjuma frá vinstri en Dalot sem og miðja Man United – sem samanstóð af Paul Pogba og Scott McTominay – litu hræðilega út í marki gestanna.

Aðeins sjö mínútum síðar jafnaði vinstri bakvörðurinn Alex Telles metin með sínu fyrsta marki fyrir Manchester United. Bruno Fernandes tók þá aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig Villarreal, lyfti hann boltanum út í teiginn vinstra megin þar sem Telles smellhitti boltann í fyrsta og söng hann í netinu örskömmu síðar.

Staðan orðin 1-1 og virtist sem Man Utd ætlaði að sækja sigurinn eftir það. Allt kom þó fyrir ekki og fékk Villarreal gullið tækifæri til að vinna leikinn er fimm mínútur lifðu leiks. De Gea varði þá skot af stuttu færi og á einhvern ótrúlegan hátt tókst Alex Telles að henda sér fyrir skot gestanna í kjölfarið. 

Lýsandi fyrir leik heimamanna voru vandræði þeirra við skiptingu undir lok leiks. Fjórða dómara leiksins tókst engan veginn að setja rétt númer á skiltið sem gefur upp hver kemur inn og hver út. Því voru Jesse Lingard og Fred á hliðarlínunni í góðar fjórar mínútur áður en þeir komu loks inn á.

Sú skipting átti samt eftir að skipta sköpum en Fred - sem kom inn í vinstri bakvörðinn - hengdi boltann á fjær þar sem Ronaldo skallaði hann fyrir fætur Lingard sem tókst að koma honum út á Portúgalann sem þrumaði að marki og í netið fór boltinn. Staðan orðin 2-1 og reyndust það lokatölur leiksins.

Manchester United er þar með komið á blað í Meistaradeild Evrópu og er nú með þrjú stig líkt og Young Boys frá Sviss. Villarreal er með eitt stig á botni riðilsins á meðan Atalanta er á toppnum með fjögur.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira