Neytendur

„Sér­stak­lega hættu­legar“ raf­rettu­á­fyllingar enn til sölu

Atli Ísleifsson skrifar
Starfsmenn Neytendastofu hafa síðustu mánuði skoðað yfir 2.6öö vökva fyrir rafrettur og 98 rafrettur.
Starfsmenn Neytendastofu hafa síðustu mánuði skoðað yfir 2.6öö vökva fyrir rafrettur og 98 rafrettur. Getty

Enn er verið að selja sérstaklega hættulegar rafrettuáfyllingar með allt of miklu magni nikótíns í sérverslunum með rafrettur á landinu.

Frá þessu segir á vef Neytendastofu, en starfsmenn stofnunarinnar hafa síðustu mánuði skoðað yfir 2.600 vökva fyrir rafrettur og 98 rafrettur og verðmerkingar í sérverslunum með rafrettur.

Farið hafi verið inn á sölustaði í Reykjanesbæ, Akranesi, Selfossi, Sauðárkróki, Akureyri, Vestmannaeyjum og á höfuðborgarsvæðinu.

„Kom í ljós að enn er verið að selja áfyllingar sem sérstaklega eru hættulegar með allt of miklu magni nikótíns, en hámarks styrkleiki má ekki fara yfir 20 mg/ml.

Neytendastofa hefur lagt mikla áherslu á að stöðva alla sölu áfyllinga sem höfða til barna, en þær geta verið litríkar og með teikningum af táknum eða teiknimyndafígúrum. Slíkar vörur fundust í einni verslun og var salan á áfyllingunni stöðvuð strax. Sérfræðingur Neytendastofu ákvað að senda 38 rafrettur og 112 áfyllingar til Danmerkur til prófunar en niðurstöður þeirra prófanna eru ekki enn komnar,“ segir í tilkynningunni.

Þurfa að vera undir afgreiðsluborði

Neytendastofa kannaði einnig ástand sýnileika rafrettna og áfyllinga í verslunum,en sérverslanir mega hafa vörur sýnilegar þegar inn í verslun er komið en þurfi að passa sig að vörurnar sjáist ekki í gegnum glugga verslunar.

„Blandaðar verslanir þurfa að koma rafrettum og áfyllingum fyrir undir afgreiðsluborði eða í lokuðum skápum sem ekki sést inn í.

Aðeins ein sérverslun á Sauðárkróki reyndist vera með skyggðar rúður svo ekki sást inn í verslunina auk þess sem verslanir í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði voru í lagi.

Vakin er athygli á því að eftirlit með rafrettum og áfyllingum flyst til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þann 1. október næstkomandi,“ segir á vef Neytendastofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×