Íslenski boltinn

Að­eins Breiða­blik hélt boltanum betur innan liðs en FH

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðmundur Kristjánsson var sá leikmaður FH sem átti flestar sendingar í Pepsi Max deildinni í sumar.
Guðmundur Kristjánsson var sá leikmaður FH sem átti flestar sendingar í Pepsi Max deildinni í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Þegar tölfræði Pepsi Max deildar karla skoðuð er margt sem kemur á óvart. Það sem kemur ef til vill hvað mest á óvart er að FH-ingar – sem enduðu í 6. sæti deildarinnar – héldu næstmest í boltann af öllum liðum deildarinnar.

Vísir ætlar að kafa aðeins í tölfræði Wyscout frá nýloknu tímabili í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu en þar má finna margt áhugavert nú þegar síðasti leikurinn hefur verið spilaður í Pepsi Max deild karla 2021.

Lið Ólafs Jóhannessonar eru þekkt fyrir að spila boltanum vel sín á milli.Vísir/Hulda Margrét

Það er vitað að Breiðablik vill spila þannig bolta að liðið heldur lengur, og betur, í boltann en önnur lið í Pepsi Max deild karla. Það sést vel þegar skoðað er hversu stóran hluta af leikjum sínum liðið hélt í boltann.

Breiðablik var með boltann alls 63,7 prósent í sumar. Það er langt um meira en FH sem er nokkuð óvænt í 2. sæti þegar kemur að því að halda boltanum innan sinna raða. FH liðið var með boltann 55 prósent af leikjum sínum í sumar.

Miðvörðurinn Guðmann Þórisson var sá leikmaður FH sem skilaði boltanum oftast á samherja er litið er á prósentu heppnaðra sendinga. Alls heppnuðust 90,47 prósent þeirra sendinga sem Guðmann reyndi í deildinni.

Guðmann var eini leikmaður FH með yfir 90 prósent heppnaðar sendingar.Vísir/Vilhelm

Logi Hrafn Róbertsson kom þar á eftir með 88,37 prósent heppnaðar sendingar á meðan markvörðurinn Gunnar Nielsen kláraði 87,3 prósent sendinga sinna.

Guðmundur Kristjánsson átti flestar sendingar allra í FH-liðinu en hann gaf boltann 1205 sinnum í sumar. Rötuðu 86,3 prósent þeirra á samherja.

Athygli vekur að lærisveinar Arnars Gunnlaugssonar í Íslandsmeistaraliði Víkings var aðeins með boltann 51,7 prósent leikja sinna í sumar. Svo virðist sem Arnar hafi breytt uppleggi sínu aðeins en undanfarin tvö tímabil hafa Víkingar reynt hvað þeir geta til að halda í boltann. 

Breytingin virðist hafa virkað ágætlega þar sem félagið varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti í 30 ár og gæti enn unnið tvöfalt.

Það kemur ef til vill ekki á óvart að Skagamenn eru í neðsta sæti þegar kemur að því að halda boltanum innan liðs. Liðið var aðeins með boltann í 40,1 prósent leikja sinna í sumar. Hér að neðan má sjá töfluna heild sinni.

Lið – Prósenta liðs með boltann

Breiðablik – 63,7%

FH – 55%

KA – 54,3%

KR – 53%

Víkingur - 51,7%

Valur – 51,1%

Leiknir Reykjavík – 47,9%

HK – 46,7%

Fylkir – 46,3%

Keflavík – 45,6%

Stjarnan – 44,4%

ÍA – 40,1%


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×