Erlent

Sarkozy dæmdur í eins árs stofufangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Nicolas Sarkozy var forsetinn Frakklands frá 2007 til 2012. Hann hætti afskiptum af stjórnmálum árið 2017.
Nicolas Sarkozy var forsetinn Frakklands frá 2007 til 2012. Hann hætti afskiptum af stjórnmálum árið 2017. AP/Ludovic Marin

Franskur dómstóll dæmdi Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseta Frakklands, í eins árs stofufangelsi fyrir brot á lögum um fjármál stjórnmálaframboða þegar hann barðist fyrir endurkjöri árið 2012. Hann fær að afplána refsinguna heima hjá sér undir rafrænu eftirliti.

Sarkozy var sakaður um að eyða tæplega tvöfalt meira fé í kosningabaráttu sína árið 2012 en lög leyfa. Hann tapaði kosningunum fyrir Francois Hollande, frambjóðanda sósíalista. 

Fyrrverandi forsetinn er sagður hafa vitað að hann væri nálægt lögbundnu hámarki um kostnað forsetaframboðs. Hann hafi hunsað ábendingar endurskoðenda sinna og skipulagt stóra kosningafundi, að sögn AP-fréttastofunnar.

Sarkozy neitaði sök og hélt því fram að hann hafi ekki ætlað sér nein svik. Þá hafi hann haft fólk í vinnu til að stýra framboðinu og því væri ekki hægt að draga hann til ábyrgðar fyrir brotin.

Þrettán aðrir eru ákærðir í málinu, þar á meðal félagar Sarkozy úr Lýðveldisflokknum, endurskoðendur og yfirmenn almannatengslastofu sem skipulagði kosningafundi. Þeir eru ákærðir fyrir falsaðir, trúnaðarbrot, fjársvik og aðild að brotum á kosningalögum.

Sumir þeirra hafa viðurkennt að hafa falsað reikninga til að fela framúrkeyrsluna.

Áður var Sarkozy dæmdur fyrir spillingu í öðru dómsmáli í mars. Hann hlaut ársfangelsisdóm en áfrýjaði honum. Gengur Sarkozy laus í millitíðinni.


Tengdar fréttir

Fyrrverandi forseti Frakklands dæmdur fyrir spillingu

Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, hefur verið dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar vegna spillingar. Hann var meðal annars dæmdur fyrir að reyna að múta dómara í tengslum við rannsókn hvort hann hafi tekið við ólöglegri peningasendingu frá Liliane Bettencourt fyrir forsetaframboð hans árið 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×