Sport

Rússneskum glímuköppum hent úr flugvél vegna dólgsláta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vladimir Putin Rússlandsforseti tók á móti Abdulrashid Sadulayev og öðrum verðlaunahöfum Rússa á Ólympíuleikunum í Kremlin í síðasta mánuði.
Vladimir Putin Rússlandsforseti tók á móti Abdulrashid Sadulayev og öðrum verðlaunahöfum Rússa á Ólympíuleikunum í Kremlin í síðasta mánuði. getty/Yevgeny Biyatov

Sjö úr rússneska glímulandsliðinu var hent út úr flugvél vegna óláta. Meðal þeirra var nýkrýndur Ólympíumeistari.

Rússneska glímulandsliðið lét öllum illum látum í flugvél á leið til Noregs þar sem heimsmeistaramótið fer fram. Glímukapparnir neituðu meðal annars að nota andlitsgrímu.

Stöðva þurfti vélina í Hollandi vegna flugdólganna. Hollenska lögreglan hjálpaði til við að fjarlægja sjö glímukappa úr vélinni.

Forseti rússneska glímusambandsins, Mikhail Mamyashvili, segir að ekki hafi fengist neinar útskýringar á því af hverju glímukapparnir voru fjarlægðir úr vélinni.

Meðal flugdólganna var Abdulrashid Sadulayev sem vann til gullverðlauna í 97 kg flokki á Ólympíuleikunum í Tókýó. Hann var einnig fánaberi rússnesku ólympíunefndarinnar á lokahátíð Ólympíuleikanna. Sadulayev varð líka Ólympíumeistari í Ríó 2016 og er fjórfaldur heimsmeistari og fjórfaldur Evrópumeistari.

Heimsmeistaramótið í glímu hefst í Noregi á morgum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×