Fótbolti

„Hún er magnaður leikmaður“

Sindri Sverrisson skrifar
Landsliðskonan Karitas Tómasdóttir skoraði tvö glæsileg mörk í kvöld, það fyrra eftir frábæran sprett og það seinna með fullkomnum skalla.
Landsliðskonan Karitas Tómasdóttir skoraði tvö glæsileg mörk í kvöld, það fyrra eftir frábæran sprett og það seinna með fullkomnum skalla. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Vilhjálmur Kári Haraldsson var stoltur af sínum konum í Breiðabliki eftir 4-0 sigurinn gegn Þrótti í bikarúrslitaleiknum í kvöld. Hann segist ekki vera hættur.

„Þetta var virkilega flottur leikur. Að sjálfsögðu höfum við stundum spilað betri bolta en baráttan og vinnusemin var algjörlega upp á tíu,“ sagði Vilhjálmur.

Karitas Tómasdóttir kom Blikum á bragðið með frábæru marki um miðjan fyrri hálfleik og skoraði glæsilegt skallamark í þeim seinni. Vilhjálmur hrósaði henni:

„Þetta var alveg ótrúlegt. Hún er magnaður leikmaður. Hleypur út um allan völl. Það skiptir rosalegu máli að fá mark svona tiltölulega snemma,“ sagði Vilhjálmur. Hvað sögðu Blikar í hálfleik, 2-0 yfir?

„Við vildum róa okkur aðeins meira í spilinu. Það gekk nú ekki alveg en við áttum góðar sóknir og þetta var geggjuð barátta.“

Vilhjálmur fagnar í leikslok.vísir/hulda margrét

Vilhjálmur hefur gefið út að hann verði ekki áfram þjálfari Breiðabliks á næstu leiktíð en hann ætlar að stýra liðinu áfram í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þar sem fjörið hefst á miðvikudagskvöld með leik við PSG:

„Það eru fleiri leikir eftir,“ sagði Vilhjálmur áður en hann var gripinn í bikarmeistarafögnuð með sínu liði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×