Þetta er sama svæðið og jarðvísindamenn töldu líklegast að myndi gjósa miðvikudaginn 3. mars, fyrir sjö mánuðum. Þann dag héldu Almannavarnir upplýsingafund vegna óróapúls sem fram kom á jarðskjálftamælum og hófst um klukkan 14.20. Óróinn benti til þess að kvika væri á leið til yfirborðs og var talið að eldgos væri við það að brjótast út.

Fréttamenn Stöðvar 2 flugu þá yfir svæðið og sendu út frá flugferðinni í beinni útsendingu. Útsendingin var söguleg því þetta var í fyrsta sinn í íslensku sjónvarpi sem sent var beint úr þyrlu hérlendis í fréttatíma frá íslenskum fréttaviðburði.
Það var Jón Kjartan Björnsson, þyrluflugstjóri hjá Norðurflugi, sem flaug þyrlunni en Arnar Halldórsson kvikmyndaði. Í útsendingunni mátti vel sjá landslagið á líklegu upptakasvæði eldgoss suðvestur af Keili og sprungur sem liggja um svæðið. Ennfremur kom fram að þar eru engin mannvirki.
Hér má sjá útsendingu Stöðvar 2 úr þyrlunni:
Eldgosið lét þó enn bíða eftir sér í sextán daga. Jarðeldurinn braut sér loks leið upp á yfirborð laugardagskvöldið 19. mars í Geldingadölum í austanverðu Fagradalsfjalli. Jarðvísindamenn höfðu í millitíðinni getað fylgst með því hvernig kvikugangurinn færðist eftir sprungu milli Keilis og Nátthaga í stefnu norðaustur-suðvestur.

Umbrotunum fylgdi öflug jarðskjálftahrina sem hófst 24. febrúar og stóð í þrjár vikur. Tugir skjálfta mældust yfir fjögur stig. Sá stærsti mældist 5,7 stig með upptök 3,3 kílómetra suðsuðvestur af Keili. Skjálftunum linnti loks þegar eldgosið hófst.
Fyrir útsendinguna sendi Vísir einnig beint úr þyrlunni þegar flogið var í átt að Keili:
Hér má sjá aukafréttatíma Stöðvar 2 og Vísis kvöldið sem eldgosið hófst:
Hér má sjá aukafréttatíma Stöðvar 2 og Vísis morguninn eftir að gosið hófst: