Jón Guðni var sárþjáður er hann var borinn af velli um miðbik fyrri hálfleiks er Hammarby tapaði fyrir Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Ljóst var strax að líkurnar á að Jón Guðni myndi vera með íslenska hópnum í leikjunum sem fram fara 8. og 11. október væru litlar sem engar.
Knattspyrnusamband Íslands hefur nú staðfest að Jón Guðni verði ekki í hópnum vegna meiðslanna. Sömu sögu er að segja af Jóhanni Berg Guðmundssyni sem er einnig að glíma við meiðsli líkt og svo oft áður.
Ljóst er að þetta er mikið högg fyrir Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfara, en það á eftir að koma í ljóst hvort hann kalli aðra menn inn í hópinn. Aðeins eru þrír miðverðir eftir í hópnum og þá má reikna með að Jóhann Bergi hafi átt að spila báða leikina á hægri væng liðsins.
Jón Guðni á að baki 18 A-landsleiki og hefur skorað í þeim eitt mark. Jóhann Berg á að baki 81 leik og hefur skorað átta mörk.
Ísland er sem stendur í 5. sæti undanriðilsins fyrir HM 2022 sem fram fer í Katar með fjögur stig að loknum sex leikjum.