Innlent

„Það er ekkert landris“

Birgir Olgeirsson skrifar
Páll Einarsson jarðfræðingur.
Páll Einarsson jarðfræðingur. Vísir

Rúmlega 700 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Sá stærsti reið yfir á áttunda tímanum í morgun, af stærðinni 3,3.

Frá því hrinan hófst í síðustu viku hafa hátt í þúsund skjálftar mælst á dag og hefur ekkert dregið úr henni. Gervitunglamyndir hafa ekki sýnt landris á svæðinu en von er á næstu gervitunglamynd eftir tvo daga.

„Það er ekkert landris. Það væri það sem væri leitað að. Ef verulegt magn af kviku bætist í ganginn til dæmis þá ætti hann að sjást í aflögunarmælingum. Þá yrði landris og landsig sem er þá mælanlegt en það er ekki mælanlegt ennþá,“ segir Páll. 

Skjálftarnir eru á fimm til sjö kílómetra dýpi og því erfitt að sjá hvort kvikuhreyfingar valda hrinunni sem teygir sig suðvestur af Keili og í átt að kvikuganginum við Fagradalsfjall.

„Jarðskorpuhreyfingarnar sem fylgja þessari hrinu eru svo litlar að þær eiginlega mælast ekki. Það er ekkert sem bendir til að það sé kvika tengd þessu en ekki alveg hægt að útiloka það samt því skjálftarnir eru djúpt niðri. Það gæti verið kvikuhreyfing þarna niðri sem ekki sjást á yfirborði,“ segir Páll. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×