Erlent

Danir og Þjóð­verjar sækja ellefu konur með tengsl við Ríki íslams og 37 börn

Atli Ísleifsson skrifar
Í flóttamannabúðunum í Roj í norðausturhluta Sýrlands dvelja nú um 60 þúsund manns og þar af 40 þúsund börn.
Í flóttamannabúðunum í Roj í norðausturhluta Sýrlands dvelja nú um 60 þúsund manns og þar af 40 þúsund börn. EPA

Yfirvöld í Þýskalandi og Danmörku hafa með aðstoð Bandaríkjahers sótt ellefu konur, sem áður höfðu gengið til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams, og 37 börn, frá norðurhluta Sýrlands. Konurnar og börnin komu til Þýskalands og Danmerkur í gærkvöldi og í nótt.

„Börnin voru ekki ábyrð fyrir þeirri stöðu sem þau voru í,“ segir þýski utanríkisráðherrann Heiko Maas í yfirlýsingu. Ráðherrann segir hins vegar nauðsynlegt að konurnar svari fyrir gjörðir sínar.

Átta konur og 23 börn þeirra voru flutt til Þýskalands, en um er að ræða stærsta slíka flutning landsins frá árinu 2019. Stór hluti kvennanna var handtekinn við komuna.

Konurnar yfirgáfu á sínum tíma Danmörku og Þýskaland til að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams.

Erfið staða

Maas segir stöðuna í heimshlutanum vera mjög erfiða. „Milljónir manna hafa þörf fyrir mannúðaraðstoð,“ segir ráðherrann og bætir við að heimsfaraldurinn og efnahagshrun hafi gert stöðuna enn erfiðari.

Konurnar og börnin voru sótt í flóttamannabúðirnar Roj í norðausturhluta Sýrlands, þar sem Kúrdar ráða ríkjum. Var þeim flogið með bandarískri herflugvél til Kúveit og svo til Frankfurt.

Danskir fjölmiðlar greindu frá því í nótt að flugvél með dönsku konurnar þrjár og börnin fjórtán hefði lent á flugvelli í Karup á Jótlandi í nótt. Ein konan verður svo leidd fyrir dómara á næstu klukkustundum.

Tugþúsundir í flóttamannabúðum

Fjölmörg ríki hafa glímt við hvernig best sé að taka á málum þeirra sem yfirgáfu landið til að ganga til liðs við Ríki íslams. Sömuleiðis hvernig skuli taka á málum barna þeirra.

Í flóttamannabúðunum í Roj dvelja nú um 60 þúsund manns og þar af 40 þúsund börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×