Enski boltinn

Newcastle komið í eigu Sádi-Araba

Sindri Sverrisson skrifar
Newcastle hefur verið í eigu Mike Ashley frá árinu 2007.
Newcastle hefur verið í eigu Mike Ashley frá árinu 2007. Getty/Jack Thomas

Yfirtöku sádi-arabíska sjóðsins PIF á enska knattspyrnufélaginu Newcastle er nú lokið. Sjóðurinn hefur keypt 80% hlut í félaginu sem verið hafði í eigu Mike Ashley síðastliðin 14 ár.

Um 300 milljóna punda yfirtöku er að ræða en málið var ekki frágengið fyrr en nú síðdegis eftir að ljóst varð að enska úrvalsdeildin hefði samþykkt hana.

Í yfirlýsingu frá deildinni segir að hún hafi fengið lagalega staðfestingu á því að Newcastle verði ekki í eigu ríkisins Sádi-Arabíu. Eigandinn er fjárfestingarsjóðurinn Public Investment Fund sem litið er á að sé ekki tengdur ríkinu.

Þar með stenst yfirtakan reglur ensku úrvalsdeildarinnar en mannréttindasamtökin Amnesty International hafa hvatt deildina til að breyta reglum sínum og hafa þar mannréttindasjónarmið í huga. Sádi-arabísk stjórnvöld hafa verið sökuð um afar alvarleg mannréttindabrot.

Stuðningsmenn Newcastle hafa margir lengi beðið eftir því að losna við eigandann Mike Ashley og verður nú að þeirri ósk sinni. Ljóst er að nýjum eigendum fylgir stóraukið fé til leikmannakaupa og Sky Sports segir að búast megi við því að stjórinn Steve Bruce verði látinn taka pokann sinn.

Næsti leikur Newcastle er gegn Tottenham 17. október. Liðið er með þrjú stig eftir sjö umferðir, í næstsneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×