Innlent

Tæpur fjórðungur vantreystir niðurstöðum kosninganna

Snorri Másson skrifar
Af kosningavöku Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðismenn eru þeir sem langmest traust hafa á niðurstöðum nýafstaðinna þingkosninga.
Af kosningavöku Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðismenn eru þeir sem langmest traust hafa á niðurstöðum nýafstaðinna þingkosninga. Vísir/Vilhelm

Tæpur fjórðungur landsmanna treystir niðurstöðum nýafstaðinna Alþingiskosninga illa. Traustið er komið niður í það sem þekkist í nágrannalöndum eftir að hafa sögulega séð verið mjög mikið hér á landi.

30 prósent fólks treystir niðurstöðum kosninganna mjög vel, 31,3% fremur vel og 15,4% í meðallagi vel. 16,4% fólks treystir þeim fremur illa en 6,9% mjög illa.

Samtals treysta því 76,7% fólks kosningum vel eða í meðallagi vel en 23,3% illa.

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, segir þessar niðurstöður ekki mjög alvarlegar og bendir á að mikill meirihluti landsmanna treysti kosningunum.

„Mér sýnist þessar niðurstöður vera að segja okkur að það er þessi tiltekna kosning sem fólk er að hafa svolitlar efasemdir um frekar heldur en ferilinn almennt. En auðvitað er það þannig að það þarf að fara rækilega yfir það sem gerðist og laga þá hnökra sem opinberuðust þarna,“ segir Eiríkur í samtali við fréttastofu.

Maskína

Könnunin er framkvæmd af Maskínu, en þetta er í fyrsta sinn sem Maskína mælir sérstaklega traust á niðurstöðum kosninga, þannig að ekki liggur alveg fyrir hve laskað traustið er eftir kosningarnar nú.

„Íslendingar hafa almennt treyst niðurstöðum kosninga en það hefur hins vegar verið að gerast um víða veröld að svona vantraust er að aukast í þjóðfélögum. Samsvarandi niðurstöður og við erum að sjá í þessari könnun eru ekki mjög óalgengar í bara venjulegum könnunum í löndunum í kringum okkur eins og til að mynda í Bretlandi,“ segir Eiríkur.

Frambjóðendur sem kært hafa kosninguna hafa lýst yfir áhyggjum af því að þingmenn sitjandi ríkisstjórnar, sem gerir sig um þessar mundir líklega til að halda áfram samstarfinu, hafi meirihluta í þeirri nefnd sem á endanum sker úr um lögmæti kosninganna. 

Af niðurstöðum könnunar Maskínu að dæma er mikill munur á trausti fólks til kosninganna eftir því hvaða flokk það kaus. Þannig mælist langmest traust hjá sjálfstæðismönnum, langt yfir meðallagi, og þar á eftir hjá framsóknarmönnum. Mest vantraust mælist hjá Pírötum og Sósíalistum, minna en hjá þeim sem kusu ekki.

Maskína

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×