Skoðun

Hey, þetta er ekki flókið

Sigurður Friðleifsson skrifar

Það er eðlilegt að fólki fallist hendur þegar reynt er að rýna í loftslagsmál af einhverri dýpt. Orð og skammstafanir eins og IPPC, LULUCF, ETS kerfi, Carbfix, koltvísýringsígildi, Gígatonn og Terawattstundir geta virkað sem konfekt í eyrum sérfræðinga en eru kannski ekki jafnaðlaðandi fyrir almenning. Þegar kemur hinsvegar að nauðsynlegum aðgerðum sem snúa að almenningi, þá er málið í raun sáraeinfalt.

1 Minnka eða hætta olíunotkun

Vegasamgöngur er olíu- og kolefnisgeiri almennings. Veldu eitthvað eða allt af eftirfarandi lausnum: Ganga, hjól, hlaupahjól, strætó, samakstur, sparakstur, heimavinna, heimsendingar, raf-, metan-, vetnisbíll.Misjafnt er hvað hentar hverjum en ekki gera ekki neitt!

2 Flokka meira

Hugsaðu um alla málma eins og gull. Aldrei henda málmi í almennt rusl. Til dæmis sparar endurvinnsla á einu kg af áli 9 kg af CO2. Hugsaðu um allt lífrænt efni, matarleifar, pappa og timbur sem auðæfi. Poki af lífrænu efni sem ekki er settur í jarðgerð getur losað allt að 10 kg CO2 ef hann er settur í urðun. Misjafnt er hve vel fólki gengur að flokka en ekki gera ekki neitt!

3 Vertu virkur neytandi

Vald neytenda er vannýtt afl. Fyrirtæki eru háðari þér en þú þeim og eðlilegt að gera kröfur. Þau vilja þjóna þér og þá er um að gera að biðja um umhverfisvænni þjónustu. Prófaðu t.d. að spyrja fyrirtækið sem sendir til þín vöru eða mat hvort sendingin komi ekki örugglega á rafmagni. Ef þúsund viðskiptavinir biðja um eitthvað þá gerist eitthvað. Vertu upplýstur og veldu þá sem gera vel, umhverfishrós frá neytenda getur dimmum rekstri í hagnað breytt. Fáðu vinnuveitanda þinn til að gera betur þ.e. fara í orkuskipti, bæta reiðhjólaaðstöðu, setja upp hleðslustöðvar eða gera samgöngusamninga við starfsfólk. Misjafnt er hversu kröfuharðir neytendur eru varðandi umhverfismál fyrirtækja, en ekki gera ekki neitt!

4 Prófaðu mótvægisaðgerðir

Hættu að spá í kolefnisjöfnun, farðu bara að binda eins mikið og þú mögulega getur samhliða minnkun á eigin losun. Við erum í skuld hvort eð er, þ.e. uppsafnað kolefnismagn í lofthjúpnum er svo mikið vegna losunar síðustu áratuga að mestu skiptir að fara strax í bullandi niðurdrátt. Óþarfi er að tefja málið með því að reikna sig fram og til baka í eitthvert meint hlutleysi. Því meira því betra. Það þarf ekkert endilega að arka sjálfur út og planta trjám, bara kaupa tonn hjá Kolviði, landgræðslu eða Votlendissjóði. Kolefnisbinding er t.d. frábær tækisfærisgjöf til þeirra sem eiga allt. Misjafnt er hvaða mótvægisaðgerðir heilla fólk en ekki gera ekki neitt!

Byrjum strax

Það er slatti að fólki að gera góða hluti nú þegar. En það er einu sinni þannig að 10 skref hjá hundrað manns eru þúsund skref en eitt skref hjá 100 þúsund manns eru samtals 100 þúsund skref. Hugmyndirnar hér að ofan er auðvitað langt í frá tæmandi listi en ætti að geta verið góð og sveigjanleg byrjun fyrir alla. Þetta snýst í raun bara um kg eða tonn. Færri tonn upp og fleiri tonn niður, flóknara er það ekki. Hefjumst handa!

Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×