Handbolti

Robbi Gunn um Haukana og Guðmund Braga: Ég bara skil þetta ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Bragi Ástþórsson í leik með Aftureldingu.
Guðmundur Bragi Ástþórsson í leik með Aftureldingu. Vísir/Daníel Þór

Seinni bylgjan er búin að tala mikið um Guðmund Braga Ástþórsson á þessu tímabili og ekki af ástæðulausu því strákurinn, sem er ekki pláss fyrir í Haukum, hefur spilað mjög vel með liði Aftureldingar.

Guðmundur Bragi Ástþórsson er með 8 mörk og 2 stoðsendingar að meðaltali í leik í fyrstu þremur leikjunum og er þar með 73 prósent skotnýtingu.

„Við erum búnir að tala mikið um hann á þessu tímabili og nú vorum við að tala um breidd. Haukarnir eru að lána hann. Robbi byrjum á þér. Af hverju eru þeir að lána hann,“ spurði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar.

„Ég bara skil það ekki og ég er örugglega í hópi flestra sem skilja þetta ekki. Afturelding er ánægð með það að hann má ekki skipta til baka fyrr en í janúar því það hlýtur bara að vera gefið að þeir kalla á hann aftur til baka í janúar,“ sagði Róbert Gunnarsson, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

Klippa: Seinni bylgjan: Af hverju lána Haukarnir Guðmund Braga?

„Vonandi fyrir Aftureldingu gera þeir það ekki en ég skil þetta ekki því mér finnst hann vera að standa sig virkilega vel. Hann fær traustið þarna og hann fær mínútur. Ég er virkilega ánægður fyrir hönd ungra leikmanna þegar þeir fá mínútur. Haukarnir gætu vel notað hann,“ sagði Róbert.

„Það er ekki spurning um það að Haukarnir gætu notað svona leikmann eins og hann er búinn að vera að spila núna. Hann myndi koma með ákveðin element inn í Haukaliðið sem þeim vantar. Hann er svona dínamískur leikmaður sem getur vel unnið stöðuna maður á mann. Hann er frekar ófyrirsjáanlegur í sínum aðgerðum og hann er svolítið sá sem Haukana vantar,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

Það má sjá spjallið um Guðmund Braga hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×