Víkingar eru Íslandsmeistarar og sigurstranglegra liðið enda björguðu Skagamenn sér frá falli í lokaumferðinni. Bæði lið hafa þó unnið marga leiki í röð, Skagamenn síðustu fimm leiki sína og Víkingar undanfarna níu leiki.
Þegar kemur að innbyrðis leikjum liðanna í bikarkeppninni þá er líka önnur sigurganga í gangi.
Skagamenn hafa nefnilega unnið síðustu sjö bikarleiki félaganna eða alla bikarleiki þeirra síðan 1971.
Víkingar unnu síðast Skagamenn í bikarnum í undanúrslitum keppninnar 1971. Leikurinn fór fram 24. október á Melavellinum og vann Víkingur leikinn 2-0.
Mörkin skoruðu fyrirliðinn Gunnar Gunnarsson og svo Páll Björgvinsson sem er þekktastur fyrir handboltaferil sinn með félaginu enda lengi burðarás í sigursælu Víkingsliði.
Víkingar fóru síðan alla leið og unnu bikarinn eftir 1-0 sigur á Breiðabliki í úrslitaleiknum þar sem Jón Ólafsson skoraði sigurmarkið.
Víkingsliðið komst einnig í bikarúrslitaleikinn fjórum árum fyrr eftir að hafa unnið Skagamenn 2-1 í undanúrslitaleiknum.
Frá og með árinu 1972 hafa liðin mæst sjö sinnum í bikarkeppninni og Skagamenn hafa unnið alla leikina og það með markatölunni 23-6.
Skaginn vann leiki liðanna 1976, 1982, 1992, 1993, 1999, 2001 og 2007.
Úrslitaleikur Mjólkurbikarsins milli ÍA og Víkings er sýndur beint á Stöð 2 Sport í dag. Leikurinn hefst klukkan 15.00 en útsendingin hefst með upphitun klukkan 14.15.
- Bikarleikir ÍA og Víkings Reykjavíkur:
- 2007 - ÍA vann 2-1 í sextán liða úrslitum
- 2001 - ÍA vann 4-1 í sextán liða úrslitum
- 1999 - ÍA vann 5-0 í átta liða úrslitum
- 1993 - ÍA vann 4-1 í átta liða úrslitum
- 1992 - ÍA vann 3-2 í átta liða úrslitum
- 1982 - ÍA vann 2-1 í undanúrslitum
- 1976 - ÍA vann 3-0 í sextán liða úrslitum
- 1971 - Víkingur vann 2-0 í undanúrslitum
- 1967 - Víkingur vann 2-1 í undanúrslitum