„Ég bara rýk hér upp á vélar um leið og ég kem, ef þannig stendur á. Það er alveg yndislegt. Og finna töðuilminn. Það er bara hluti af tilverunni,“ segir Steingrímur þegar hann stígur af traktornum.
Í þættinum Um land allt á Stöð 2, þeim fyrsta í nýrri þáttaröð, hittum við Steingrím á hans heimaslóðum.

Hann rifjar upp æskuna á Gunnarsstöðum og sýnir okkur átthagana og forna heiðabyggð þar sem forfeður hans bjuggu. Einnig er stiklað á stóru í æviferli hans sem stjórnmálamanns.
„Þá afsalar þú þér talsverðu af frelsi þínu. Þú stjórnar því ekkert algerlega sjálfur hvernig þú verð þínum tíma eða hvað þú gerir,“ segir Steingrímur í þættinum.

„Núna endurheimti ég þetta frelsi og fagna því að geta dregið mig af sviðinu og baksviðs og geta notið meiri tíma með fjölskyldu minni hér á Gunnarsstöðum og annarsstaðar þar sem ég hef gaman að því að vera.
Ég vona að það gangi bara vel. Að maður fái ekki einhver fráhvarfseinkenni. En það verður að koma í ljós.
Og náttúrlega óskar maður sér þess að manni endist aldur og heilsa til að njóta lífsins í einhver góð ár þegar atinu slotar,“ segir Steingrímur.

Í þættinum er hann einnig spurður um hverju hann sjái mest eftir á ferlinum en einnig hverju hann sé stoltastur af. Svörin fást í þættinum, sem er á dagskrá Stöðvar 2 á mánudagskvöld klukkan 19.10.
Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins: